Matvælastofnun hefur óskað eftir opinberri rannsókn lögreglu á einstaklingi sem grunaður er um að hafa flutt til landsins án leyfis slöngur, snáka, eðlur og tarantúlur. 

Ólöglegt er að flytja til landsins hvers konar dýr, tamin eða villt, sem og erfðaefni þeirra. Brot á lögum um innflutning dýra geta varðað sektir og í einhverjum tilfellum fangelsi allt að tveimur árum.

Hægt er að sækja um undanþágu til slíks innflutnings en til þess þarf tvö leyfi, annars vegar frá Matvælastofnun og hins vegar frá Umhverfisstofnun. Fjölskyldu- og húsdýragarðurinn er eini aðilinn sem hefur fengið leyfi á Íslandi til að flytja inn snáka og tarantúlur.

„Matvælastofnun varar eindregið við ólöglegum innflutningi á dýrum.  Með þeim hætti geta borist hættuleg smitefni til landsins sem ógna heilsu fólks og dýra,“ segir í tilkynningu á vef MAST.

2009: Hér má sjá snák sem fannst í ferðatösku manns sem var stöðvaður í Leifsstöð.