Karlmaður sem ákærður hefur verið fyrir að hafa kveikt í veitingastað sínum Kebab House í Keflavík í fyrra, var sjálfur fluttur á sjúkrahús með grun um reykeitrun vegna brunans.

Þetta staðfestir Dagmar Ösp Vésteinsdóttir saksóknari hjá embætti héraðssaksóknara.

Í upphafi var talið að eldurinn hefði kviknað út frá eldamennsku og í frétt Fréttablaðsins af málinu, sama dag og eldsvoðinn varð, var haft eftir Brunavörnum Suðurnesja að maður, sem fluttur var á sjúkrahús vegna gruns um reykeitrun, hefði sjálfur reynt að slökkva eldinn og hlotið af því minni háttar brunasár.

Sjóvá hafnaði kröfu um bætur

Maðurinn er einnig ákærður fyrir tilraun til fjársvika, með því að hafa í júlí sama ár krafið tryggingafélagið Sjóvá-Almennar um greiðslu bóta vegna tjónsins sem hlaust af eldsvoðanum og í framhaldinu einnig um bætur vegna rekstrarstöðvunar.

Í ákæru, sem Fréttablaðið hefur undir höndum, kemur fram að tryggingafélagið hafi hafnað greiðslu bóta með vísan til þess að um íkveikju hafi verið að ræða.

Ákæran var gefin út af héraðssaksóknara 7. október síðastliðinn og málið verður þingfest í næstu viku í Héraðsdómi Reykjaness.