Mat­væla­stofnun hefur óskað eftir rann­sókn lög­reglu á meintri ó­lög­mætri dreifingu af­urða af heima­slátruðu sauð­fé á Norður­landi síðast­liðinn vetur. Þetta kemur fram í frétta­til­kynningu frá Mat­væla­stofnun.

Tveir ein­staklingar bú­settir þar buðu lamba­kjöt til sölu á sam­fé­lags­miðli. Grunur leikur á að kjötið komi úr heima­slátruðu sauð­fé.Sam­kvæmt lögum um slátrun og slátur­af­urðir má einungis dreifa og selja kjöt sem hefur verið slátrað í lög­giltu slátur­húsi og heil­brigðis­skoðað af dýra­lækni á vegum Mat­væla­stofnunar.

Meint brot felst í því að taka til slátrunar sauð­fé utan slátur­húss og setja á markað af­urðirnar af því fé án þess að það hafi verið heil­brigðis­skoðað í sam­ræmi við gildandi lög­gjöf. Einungis má nýta af­urðir af heima­slátruðu fé til einka­neyslu.