Ég vissi að ég var veik en mig grunaði ekki að ég væri með krabbamein,“ segir Súsanna Sif Jónsdóttir, en hún greindist fyrst með krabbamein árið 2017, þá aðeins 26 ára gömul.
„Ég var búin að vera veik lengi og fara á milli lækna en þeir héldu alltaf að þetta tengdist vefjagigt sem ég hafði greinst með sem barn,“ segir Súsanna. Þar til hún greindist með krabbameinið hafði hún í langan tíma verið slöpp og þreytt með hita ásamt því að hún hafði grennst mikið.
„Það var svo að ég held sjötti læknirinn sem ég fer til sem tekur eftir því að ég sé rauð á olnboganum og ákveður að taka sýni. Mér fannst þetta eitthvað skrítið af því ég hafði ekkert farið til hennar út af þessu en hafði verið svona í þrjú ár, hélt að þetta væri bara þurrkublettur,“ segir Súsanna.
Í ljós kom að hvítblóðkorn var að finna í sýninu og Súsanna var með eitilfrumukrabbamein. „Þegar læknirinn hringir í mig var ég akkúrat á leiðinni til hennar og hún segir mér að sleppa því bara og fara upp á spítala og hitta lækni þar,“ útskýrir hún.
Er ég með krabbamein eða?
„Ég spurði bara strax hvað væri í gangi og hún sagði að það væri varðandi sýnið og vildi ekki segja mér meira í gegnum símann, ég sagði bara: út með það, er ég með krabbamein eða?“
Súsanna segir að þegar læknirinn hafi svarað spurningu hennar játandi hafi henni orðið mjög brugðið og kviðið því að segja fjölskyldu sinni fréttirnar. Súsanna er enn með krabbameinið sem hefur fylgt henni í fimm ár og margt hefur breyst hjá henni á þeim árum.
„Þegar ég greinist er mér sagt að við séum ekki mörg hérna á Íslandi með þetta krabbamein og að ég sé á fyrsta stigi og hafi líklega verið á því í mörg ár,“ segir Súsanna „Svo er mér bent á að 90 prósent þeirra sem greinist með þetta krabbamein í heiminum fari aldrei af fyrsta stigi yfir á annað, þriðja eða fjórða stig og deyi því ekki úr sjúkdómnum heldur með hann.“
Allt breytt
Raunin varð önnur hjá Súsönnu sem hefur þurft að fara í fjölda geisla- og lyfjameðferða til að reyna að sigrast á krabbameininu. „Flestir sem greinast með eitilfrumkrabbamein finna það þegar eitlarnir stækka en mitt var fyrst bara í húðinni og kom fram í þessum blettum eins og blettinum sem var á olnboganum,“ segir Súsanna sem er með fjölda bletta á líkamanum sem líkjast líkt og henni fannst fyrst einna helst þurrku- eða exemblettum.
„Þarna fyrst eftir að ég fái að heyra að þetta sé á fyrsta stigi og verði líklega þannig verð ég ekki beint hrædd eða stressuð og grunaði ekki að þetta væri svona alvarlegt. Ég átti bara að fara í ljósameðferðir og halda þessu niðri þannig,“ segir Súsannan sem klárar ljósameðferð og er farið að líða betur þar til hún finnur einn daginn hnúð undir húðinni.
Við það breyttist allt og krabbameinið var ekki lengur eins auðvelt viðureignar og litið hafði út fyrir í upphafi. Það hafði stökkbreyst og Súsanna átti að fara í lyfjameðferð viku eftir að stökkbreytingin fannst.