Myles Sanderson, sem grunaður er um að hafa tekið þátt í hnífsstunguárásum sem þar sem tíu manns létust og átján slösuðust í fylkinu Saskatchewan í Kanada á sunnudaginn, hefur verið handtekinn. Leitað hafði verið að honum í þremur af fylkjum landsins vegna árásanna.

Auk Myles hafði bróðir hans, Damien Sanderson, verið eftirlýstur vegna árásanna en hann fannst látinn á mánudaginn. Lík hans hafði áverka sem talið er útilokað að hann hafi valdið sjálfum sér.

Lögreglan handtók Myles Sanderson í kringum klukkan hálffjögur að staðartíma í grennd við bæinn Rosthern í Saskatchewan.

Samkvæmt frétt kanadíska ríkismiðilsins CBC hefur Sanderson verið ákærður fyrir morð, morðtilraun og innbrot.

Fréttin verður uppfærð.