Talið er að tvö tilfelli Wuhan- veirusmits sé komið upp í norðurhluta Finnlands. Það eru finnskir fjölmiðlar sem greindu frá þessu í morgun.
Á vefsíðu YLE segir að um sé að ræða meðlimi kínverskrar fjölskyldu frá Wuhan sem hefur verið á ferðalagi í Finnlandi. Vísir greinir frá því að tveir fjölskyldumeðlimir hafi leitað á heilsugæslu í bænum Ivalo í kjölfar þess að þau fundu fyrir flensueinkennum.
Búast má við niðurstöðu síðdegis í dag
Tekin voru sýni úr þeim sem hafa verið sendar til Helsinki til rannsóknar og búast má við að niðurstaða liggi fyrir síðdegis í dag eða í kvöld.
Nú þegar hafa 26 manns látist af völdum veirunnar, en um er að ræða afbrigði kórónaveiru. Upptök hennar er rakin til matarmarkaðar í kínversku borginni Wuhan.
Staðfest smit veirunnar eru í Suður-Kóreu, Japan, Hong Kong, Makaú, Taílandi, Taívan, Singapúr, Víetnam og Bandaríkjunum og hefur Alþjóðaheilbrigðisstofnunin lýst yfir neyðarástandi í Kína vegna veirunnar.