Náttúruverndarsamtök í Suður-Afríku telja að býflugur beri ábyrgð á dauða 63 mörgæsa sem fundust á Boulders-ströndinni, vinsælli strönd í Cape Town.

Eitt helsta aðdráttarafl Boulders-strandarinnar eru afrísku mörgæsirnar sem eru í útrýmingarhættu.

Þær finnast eingöngu í Suður-Afríku og Namibíu en stofn mörgæsanna í Suður-Afríku hefur minnkað um 73 prósent á þremur áratugum

Talsmaður SANParks staðfesti í samtali við þýska fjölmiðla að það hefðu fundist allt að tuttugu stungusár eftir býflugur á mörgæsunum.

Það stendur því rannsókn yfir hvað gæti hafa orsakað þessa skyndilegu árásarhneigð býflugnanna.