Fyrir­liði ís­lenska kvenna­lands­liðsins í fót­bolta, Sara Björk Gunnars­dóttir, býr í iðnaðar­borginni Wolfs­burg þar sem hún spilar með einu besta kvenna­liði Evrópu.

Fyrir þá sem þekkja ekki til borgarinnar er hún ein auðugasta borg Þýska­lands og þar eru höfuð­stöðvar Volks¬¬wa­gen-¬bíla­fram­leiðandans.

Sara býr í snoturri ný­legri íbúð með kærastanum sínum Alexander Jura sem er sjúkra­þjálfari. „Það er nú ekki mikið að gerast í borginni, en það fer samt mjög vel um okkur Alexander hér og ég get ein­beitt mér að fót­boltanum,“ segir Sara sem ræðir við blaða­mann stuttu áður en hún fer á æfingu með liðinu.

Sara á­kvað að fram­lengja ekki samning sinn við Sví­þjóðar­meistarana Rosengård þegar samningur við fé­lagið rann út árið 2016 og á­kvað þess í stað að fara á nýjar slóðir til þýska stór­liðsins.

Stundum er nauð­syn­legt að ýta sjálfum sér út í ó­þægindi vilji maður ná árangri.

„Ég var komin í á­kveðinn þæginda­ramma og ég vissi að ég þyrfti að takast á við á­skorun. Stundum er nauð­syn­legt að ýta sjálfum sér út í ó­þægindi vilji maður ná árangri. Ég vissi að ég vildi þroskast meira sem manneskja, læra nýtt tungu­mál og læra á nýja menningu.

Ég sé ekki eftir þessari á­kvörðun og hef lært mikið á þeim þremur árum sem ég hef verið hér. Það var mjög mikill gæða­munur á leik­mönnum og deildum í Þýska­landi og í Sví­þjóð á þeim tíma­punkti sem ég færði mig. Í Sví­þjóð var meira um að vera, meira bæjar­líf. Hér er öðru­vísi hugar­far og lítill tími til þess að gera annað en að spila. Við æfum ó­trú­lega mikið,“ segir Sara um lífið í Þýska­landi.

Sara Björk segist hafa þurft að takast á við fleira en harða andstæðinga á vellinum.
Getty

Erfitt verk­efni

Sara gerir upp upp­vöxt sinn og ferilinn í nýrri bók, Ó­stöðvandi. Sögu hennar skráði Magnús Örn Helga­son knatt­spyrnu­þjálfari og bókin er gefin út af Bene­dikt bóka­út­gáfu.

„Ég var búin að hugsa lengi um það hvort ég ætti að ræða um reynslu mína. Ef til vill finnst ein­hverjum skrýtið að svo ung manneskja vilji segja sögu sína. En þrátt fyrir ungan aldur hef ég upp­lifað og gengið í gegnum mikið á ferlinum, sumt skrifaði ég niður og hugsaði þá með mér að kannski gæti ég hjálpað ein­hverjum með frá­sögn minni,“ segir Sara. „Mögu­lega ein­hverri sem langar til þess að verða at­vinnu­kona í fót­bolta.

Þrátt fyrir ungan aldur hef ég upp­lifað og gengið í gegnum mikið á ferlinu, sumt skrifaði ég niður og hugsaði þá með mér að kannski gæti ég hjálpað ein­hverjum með frá­sögn minni.

Þetta var miklu erfiðara en ég bjóst við. Ég var stundum and­lega búin á því og áttaði mig ekki á því hversu djúpt ég þurfti að kafa í til­finningar mínar og sjálfa mig. Þegar eitt­hvað slæmt gerist þá hef ég til­hneigingu til að setja til­finningar mínar til hliðar. Ég hugsaði stundum um hvort ég ætti ekki bara að hætta við. Stundum var þetta svo mikið af til­finningum sem komu upp á meðan ég var að tala við Magnús að ég grét á eftir. Ég vissi samt að til þess að koma þeim boð­skap sem ég vildi á fram­færi þyrfti ég að vera hundrað prósent heiðar­leg.

Það eru kannski aðrir sem munu standa í sömu sporum og ég, ég trúi því að með því að vera opin og segja ná­kvæm­lega frá geti það auð­veldað öðrum að sjá hlutina skýrt og bregðast við þeim.“

Hafn­firðingur í húð og hár

Sara er Hafn­firðingur, for­eldrar hennar eru Guð­rún Val­dís Arnar­dóttir og Gunnar Svavars­son og hún á einn eldri bróður. Knatt­spyrnu­ferillinn hófst hjá Haukum, í Lækjar­skóla og á Ás­völlum, og svo spilaði Sara gjarnan með strákunum í frí­mínútum í skólanum.

Faðir hennar horfði með henni á fót­bolta og allt til ung­lings­ára fór hún út á völl með honum að æfa sendingar og skot. Lífið hjá Söru snerist um fót­bolta frá því hún var sex ára gömul. „Báðir for­eldrar mínir hafa stutt mig í öllu því sem ég hef gert síðan ég var lítil. Mamma var í fjár­öflun fyrir Haukana og pabbi æfði oft með mér, fór meira að segja oft út að hlaupa með mér.

Stuðningur þeirra skipti mig miklu máli og gerir enn því þau eru enn jafn spennt þegar ég er að spila. Það sem hefur verið hvað erfiðast er að höndla fjar­veru frá fjöl­skyldunni.

Ég hef búið fjarri fjöl­skyldunni í nærri tíu ár. Það er hrika­lega erfitt. Fjöl­skyldan mín er liðið mitt og Hafnar­fjörður er bærinn minn.

Ég á erfitt með að sjá mig fyrir mér annars staðar en í Hafnar­firði og er bundin æsku­slóðunum,“ segir Sara sem segist geta hugsað sér að flytja þangað seinna á ferlinum.

„Já, þannig sé ég fram­tíðina fyrir mér. Í Hafnar­firði og vonandi með fjöl­skyldu og börn.“ Sara segir að í Hafnar­firði sé gott starf í í­þróttum. „Það er auð­vitað mikil sam­keppni á milli Hauka og FH, það er gróska í í­þrótta­starfinu sem ég er hrifin af. En svo er líka bara gott að vera þar, þegar ég er heima þá segi ég stundum eins og aðrir Hafn­firðingar: Æi, þarf ég nú endi­lega að keyra til Reykja­víkur!“

Sara Björk vonast til þess að saga hennar geti hjálpað einhverjum í svipaðri stöðu.
Sigurjón Ragnar

Grófar slúður­sögur

Sara slasaðist í skóla­ferða­lagi fimm­tán ára gömul og fór í kross­bands­að­gerð ári síðar. Síðar á því sama ári fékk hún loks að spila aftur fót­bolta eftir langt hlé. Hlutirnir gerðust hratt og hún var komin í A-lands­liðið að­eins sex­tán ára.

Í bókinni gerir hún upp mjög erfiðan tíma með lands­liðinu sem í fólst mikill lær­dómur. Því að erfiðustu á­tökin eru oft ekki á vellinum. Þegar hún var sau­tján ára gömul var grófum slúður­sögum dreift um hana og Sigurð Ragnar Eyjólfs­son lands­liðs­þjálfara. „Sögu­sagnirnar voru á þá leið að við stæðum í fram­hjá­haldi. Þetta var mikið á­fall. Ég átti kærasta og Siggi Raggi átti konu og barn. Þetta var sér­lega rætin kjafta­saga og at­laga að mann­orði okkar. Slúður­sögurnar gáfu í skyn að ég ætti ekki plássið í lands­liðinu skilið. Ég var sjálf ekki viss um hvernig ég ætti að tækla þetta og varð ó­örugg og kvíðin. For­eldrar mínir studdu vel við mig,“ segir hún.

Sögu­sagnirnar voru á þá leið að við stæðum í fram­hjá­haldi. Þetta var mikið á­fall. Ég átti kærasta og Siggi Raggi átti konu og barn.

Sara leitaði til Katrínar Jóns­dóttur lands­liðs­fyrir­liða sem bauð henni að­stoð sína. „Mér var boðið að halda fund um málið en mér fannst ég ekki eiga að þurfa þess. Þetta sveið svo ó­gur­lega, sér­stak­lega vegna þess að ég hafði lagt svo hart að mér við að yfir­stíga meiðslin. Ég lagði allt í að komast á þann stað sem ég var komin á og nú var vegið að mann­orði mínu og dylgjað um að ég hefði ekki unnið fyrir þeirri stöðu sem ég var komin í.“

Sara segir reynslu sína gott dæmi um að mót­læti geti verið góður kennari. „Mér tókst að breyta reiði í orku á fót­bolta­vellinum og at­vikið gerði mig líka að betri liðs­fé­laga. Mér dettur ekki í hug að taka þátt í ill­indum eða að grafa undan liðs­fé­lögum mínum. En það tók nú samt langan tíma að komast yfir þetta. Ég á erfitt með að treysta,“ segir Sara en nokkrir leik­mannanna hafi hringt í hana og beðið hana af­sökunar.

„Ég á­kvað að snúa þessu við. Ég skyldi ekki láta brjóta mig niður. Mér finnst merki­legt að ég hafi náð að bregðast þannig við svo ung því þetta hefði auð­veld­lega getað eyði­lagt mig og brotið niður. Ég hugsa að keppnis­skapið hafi hjálpað mér í gegnum þessa reynslu.“

Sara Björk við verðlaunaafhendingu íþróttamanns ársins.
Fréttablaðið/Stefán

Ekki láta stöðva þig

Sara segir eitt besta vega­nestið sem hún geti gefið ungum konum vera að láta ekkert stöðva sig. „Ekkert. Ekki meiðsli, ekki erfið­leika. Það skiptir heldur ekki máli hversu gömul þú ert. Ef þú ert til­búin að leggja mikið á þig þá muntu komast langt. Þetta á örugg­lega við um margt. En þú sjálf verður að vilja árangur,“ segir Sara og heldur á­fram: „Það eru allir að glíma við sjálfa sig og oft þarf maður að takast á við erfiðar til­finningar sem skila sér í ein­mana­leika, kvíða og and­legu niður­broti. Það sér­kenni­lega er að slíkt getur birst nánast fyrir­vara­laust og jafn­vel í mikilli vel­gengni. Ég hef lent í slíkum að­stæðum og þurfti að hafa veru­lega fyrir því að vinna mig út úr þeim.“

Það eru allir að glíma við sjálfa sig og oft þarf maður að takast á við erfiðar til­finningar sem skila sér í ein­mana­leika, kvíða og and­legu niður­broti.

Um fram­tíð kvennaknatt­spyrnu á Ís­landi segir Sara að það þurfi að taka stærri skref. „Það þarf að taka stærri skref, nei það þarf að taka stökk! Kvenna­deildin þarf að verða at­vinnu­mennska. Leik­menn í kvenna­deild þurfa að geta ein­beitt sér hundrað prósent að fót­boltanum og ekki að vera í vinnu með. Fót­boltinn þarf að verða þeirra at­vinna. Þá búum við til fleiri af­reks­í­þrótta­menn og þannig eflum við kvenna­fót­bolta á Ís­landi. Auð­vitað er hröð þróun í deildinni núna og ég veit að þetta er of stórt stökk að taka ein­mitt núna.

En fyrir þær stelpur sem vilja ná langt þá mæli ég með því að fara út að spila til að ná í reynslu. Hún er dýr­mæt og þroskandi. En erfitt er það, þetta er það erfiðasta sem ég hef gert, að fara og vera í ára­tug frá fjöl­skyldunni. En ég er betri leik­maður og ég hef þroskast sem manneskja. Ég tala fjögur tungu­mál og hef kynnst fólki sem ég hefði aldrei annars kynnst.“

„Þegar ég var lítil þá voru engir mögu­leikar í aug­sýn. Ég var bara með karl­kyns­fyrir­myndir í fót­bolta."
Fréttablaðið/Stefán

Hluti af breytingunni

Jafn­rétti í kjörum kvenna og karla í fót­bolta hefur ekki enn verið náð og að­stæður kynjanna eru mis­jafnar. Þó hafa orðið breytingar í rétta átt. „Ég er þakk­lát fyrir að vera hluti af breytingunni. Þegar ég var lítil þá voru engir mögu­leikar í aug­sýn. Ég var bara með karl­kyns­fyrir­myndir í fót­bolta. Í dag eru enda­lausir mögu­leikar og hægt að velja úr liðum og deildum. Og ótal fyrir­myndir að líta upp til. Ég er stolt af því að fá að vera ein af þeim og sýna að það er hægt að ná langt.

„Ég er þakk­lát fyrir að vera hluti af breytingunni. Þegar ég var lítil þá voru engir mögu­leikar í aug­sýn. Ég var bara með karl­kyns­fyrir­myndir í fót­bolta.

En ég er líka þakk­lát eldri kyn­slóðinni. Sem lagði allt það sama á sig og við í dag en hafði minni mögu­leika. Þær lögðu jarð­veginn fyrir breytingarnar. En við þurfum að halda á­fram að berjast og ég get vonandi nýtt mína rödd til að skila ein­hverju til næstu kyn­slóðar. Við verðum komin á annan stað og ég sé að bilið á milli kynjanna mun minnka. Við viljum fyrst og fremst virðingu, þar á eftir koma launin,“ segir hún.

Sara segist eiga erfitt með að svara spurningum um fram­tíðina en samningur hennar við Wolfs­burg losnar í vor. „Ég er orðin vön því að breytingar um­bylti lífinu. Á einu ári getur allt breyst og það er ekkert gefið. Það er erfitt að spá fyrir um fram­tíðina en eins lengi og ég hef ást­ríðu fyrir fót­bolta þá mun ég halda á­fram að spila og vonandi með bestu liðunum.“