Mál hins 23 ára gamla Kára Orrasonar var rekið fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur í dag. Kári er ákærður fyrir að óhlýðnast fyrirmælum lögreglu í anddyri dómsmálaráðuneytisins í apríl í fyrra þar sem hann, ásamt félögum sínum í samtökunum No-Borders, krafðist fundar með ráðherra um aðbúnað flóttamanna á landinu.
Helgi Þorsteinsson, lögmaður Kára, segir í samtali við Fréttablaðið að það hafi verið líkt og tilgangurinn hafi verið að kenna hópnum lexíu. Hann segir handtökurnar grófa aðferð að réttinum til að mótmæla, sem varinn sé í stjórnarskrá Íslands.
„Þetta er að einhverju leyti hringröksemd hjá ákæruvaldinu. Þeim var skipað að fara, gerðu það ekki og því taldi lögreglan sig þurfa að handtaka þá. Sem að mínu mati er gróf aðför að réttinum til að mótmæla,“ segir Helgi.
Lögreglan læsti og handtók hópinn
„Við vorum fimm úr hópnum sem vorum handtekin í þessum friðsamlegu og fullkomlega löglegu setumótmælum í ráðuneytinu,“ sagði Kári við blaðið í júlí síðastliðnum þegar honum var birt ákæran.
Var Kára, ásamt félaga hans, Borys Ejryszew, birt ákæra frá lögreglustjóranum á höfuðborgarsvæðinu, rúmu ári síðar eftir að málið kom upp.
Kári er ákærður fyrir brot gegn lögreglulögum með því að hafa, föstudaginn 5. apríl 2019, óhlýðnast fyrirmælum lögreglu um að yfirgefa anddyri dómsmálaráðuneytisins að Sölvhólsgötu í Reykjavík, er lögregla vísaði fólki á brott úr anddyrinu.

Í ákærunni er þess krafist að hann verði dæmdur til refsingar. Kári á yfir höfði sér fésekt að viðlögðum sakar- og málskostnaði verði hann sakfelldur samkvæmt ákærunni.
Kári svaraði fyrir sig í opnu bréfi sem hann birti á vef Fréttablaðsins í júlí til til Höllu Bergþóru Björnsdóttur, lögreglustjóra á höfuðborgarsvæðinu.
„Ég var að nýta rétt minn til mótmæla og stuðla að því að fólk í erfiðri og viðkvæmri stöðu gæti komið sínu fram“, skrifaði hann þá. „Ég var að reyna að breyta samfélaginu til hins betra. Er það ekki borgaraleg skylda okkar allra?“
„Lögreglan kemur inn, læsir hurðinni og stuttu síðar erum við handtekin,“ sagði Kári við aðalmeðferð málsins í Héraðsdómi í dag. „Það hvarflaði ekki að mér að ég væri að brjóta lög.“
Líkt og lögreglan hafi ætlað að kenna mótmælendum lexíu
Helgi, lögmaður Kára segir að svo virðist vera sem að lögreglumenn hafi ætlað sér að kenna tilteknum hópi lexíu með handtökunum.
„Þó að ég geti auðvitað ekkert fullyrt um ásetning einstaka lögreglumanna, að þá er það klárlega sú upplifun sem ég hafði af málinu í dag að það var gengið svona fram til að kenna þessum mótmælendahópi lexíu,“ segir Helgi.
Hann segist hafa spurt stjórnanda lögregluaðgerðarinnar út í málið í aðalmeðferð málsins í dag. Sá hafi borið fyrir sig að aðrar mildari aðgerðir gegn mótmælendum dagana áður hefðu ekki virkað, því hefði verið þörf á að handtaka þá.

„Ef hann segir í réttarsal, lögreglumaðurinn að það hafi verið búið að reyna að færa þau úr dómsmálaráðuneytinu og það virkaði ekki, þá spyr ég, virkaði ekki í hvaða tilgangi? Virkaði ekki til að láta þau hætta að mótmæla?“ segir Helgi.
„Og svo var aldrei sýnt fram á að þetta væri sama fólkið og daginn áður,“ segir Helgi. „Þannig að mótmælendur föstudagsins voru látnir líða fyrir aðgerðir mótmælenda daginn áður, án þess að sýnt hafi verið fram á að þetta væri sama fólkið. Það er það sem mér finnst vafasamt fordæmi, að lögreglan geti mætt síðar, sagt út með ykkur og handtekið þig,“ segir hann.
Harðar sé tekið á þeim sem mótmæla vegna hælisleitenda
„Án þess að hafa nein gögn um það upplifi ég það líka þannig að þeir mótmælendur sem mótmæla stefnu stjórnvalda í málefnum hælisleitenda eru teknir harðar fyrir en mótmælendur sem mótmæla stefnunni í öðrum málaflokkum,“ segir lögmaðurinn. Hann segist upplifa að þetta sé angi af stefnu stjórnvalda í málefnum hælisleitenda.

„Vegna þess að ef þú mætir í dómsmálaráðuneytið til að mótmæla því hvernig komið er fram við hælisleitendur að þá tekur lögreglan harðar á þér en ef þú ert að mótmæla til dæmis efnahagsástandinu,“ segir Helgi. „Það er allavega mín upplifun.“
Þá segir hann því hafa verið velt upp af ákæruvaldinu í dag hvort að mótmælin hefðu verið friðsamleg. Hann bendir á að mótmælendur hafi setið á gólfinu og ekki beitt sér með öðrum hætti. Fram hafi komið í skýrslutökum að mótmælanda hafi verið hrint af lögreglu.
„Ef ég hefði setið á gólfinu með tíu lögreglumenn yfir mér með mótórhjólahjálma hefði ég ekki þorað að standa upp. Því ég hefði verið hræddur. Og þau vitni sem ekki voru lögreglumenn tóku fram að þau hefðu verið hrædd. Og það er að mínu mati markmið lögreglunnar, því mótmælendur voru hræddir,“ segir hann.
„Með fullri virðingu fyrir okkar ágætu lögreglumönnum, að þá var þetta harkalega fram gengið af lögreglunni.“