Slökkvi­lið hefur verið kallað út vegna gróður­elda sem loga á Vatns­leysu­strönd. Vel sést í reykinn, meðal annars af Kjalar­nesi.

Ásgeir Eiríksson, bæjarstjóri Voga, segir í samtali við Fréttablaðið að bruninn muni ekki koma til með að ógna byggð. Tankbíll frá Brunavörnum Suðurnesja er mættur á svæðið.

Eftir að hafa skoðað svæðið sem um ræðir segir Ásgeir að sér lítist ekkert sérlega vel á blikuna. Sterkur vindur hafi áhrif á slökkvistörf.

Bruninn er við Vatnsleysustrandarveg og við eyðibýlið Sjónarhól, samkvæmt Ásgeiri.

„Eina sem er gott og jákvætt er hagstæð vindátt með tilliti til byggðar,“ segir Ásgeir.

Þrír dælubílar sendir út og hátt í þrjátíu manns að störfum

Samkvæmt skrifstofu Brunavarna Suðurnesja hafa verið sendir út þrír dælubílar ásamt tankbíl og fólksflutningabíl með auka mannskap.

„Það er ekki séð fyrir endann á þessu enn­þá en ég held að við séum farnir að draga úr út­breiðslunni,“ segir Jón Guð­laugs­son, slökkvi­stjóri hjá Bruna­vörnum Suður­nesja.

Hann segir hátt í þrjá­tíu manns vera að störfum við að slökkva eldana og ýmsir hafi verið kallaðir út af frí­vakt.

„Þetta er þó­nokkuð stykki sem eldurinn hefur farið yfir. Maður sér þetta ekki nógu vel út af reyk en þetta er þó­nokkuð svæði sem er að brenna,“ segir Jón.

Jón segir ekki vera beina hættu af eldinum fyrir utan reyk­mengun en þó séu tölu­verðar líkur á gróður­skemmdum.

Fréttin hefur verið uppfærð.