For­dæma­lausir gróður­eldar geisa enn á stóru svæði í Ástralíu en þar sem eldarnir hafa skilið eftir sviðna jörð eru plöntur farnar að vaxa á ný. Ástralski ljós­myndarinn Murray Lowe rann­sakaði brunnið svæði ná­lægt heimili sínu í Kulnara í Nýja Suður Wa­les og upp­götvaði að líf hafði kviknað á ný.

Von blómstraði á ný

Grænt gras óx úr jörðinni og græðlingar blómstruðu úr sviðnum berki trjánna. Tegundir sem eru land­lægar á svæðinu hafa þróað með sér eigin­leika til að bruma mjög hratt eftir bruna.

Lowe sagði það hafa tendrað von í brjósti sér að sjá plönturnar dafna svo stuttu eftir að skógurinn brann. „Þetta tákn endur­nýjunar var það sem við höfðum leitað eftir,“ sagði Lowe. Hann sagði það vera létti eftir að hafa upp­lifað gjör­eyðingu skógarins sem hann hafði þekkt svo lengi.

Hér má sjá grænt gras spretta úr öskunni.
Mynd/Murray Lowe

Á­fram­haldandi eyði­legging

Alls hafa 27 látið lífið í gróður­eldunum í Ástralíu og rúm­lega 800 milljónir dýra hafa farist. Meira en 6.3 milljón hektarar af landi hafa orðið eldinum að bráð og rúm­lega tvö þúsund heimili hafa brunnið til grunna.

Búist er við á­fram­haldandi eyði­leggingu í Nýja Suður-Wa­les, Viktoríu­ríki og Suður-Ástralíu í dag. Viktoríu­ríki í Ástralíu lýsti aftur yfir neyðar­á­standi fyrir helgi vegna gróður­eldanna. Fram til þessa hafa janúar og febrúar verið þeir mánuðir þar sem mestir gróður­eldar geisa, en nú er hásumar á suður­hveli jarðar.

Ekki er öll von úti að mati ljósmyndarans sem tók þessa mynd.
Mynd/Murray Lowe