Því miður vill okkur Íslendingum gleymast hversu mikill fjársjóður er falinn í einstakri náttúru landsins. Sennilega er hún stærsta auðlind sem við eigum og mun skapa okkur ómældar tekjur í framtíðinni – en að því gefnu að við förum vel hana líkt og okkur hefur tekist með fiskimiðin okkar.

Oft erum við spurðir hver sé fallegasti staður á Íslandi – en það er erfitt að gera upp á milli barnanna sinna. Efri Hveradalur í Kverkfjöllum, Lónsöræfi og Hornstrandir koma gjarnan upp í hugann, en sennilega er það þó Torfajökulssvæðið sunnan Landmannalauga sem á vinninginn. Þar er staður sem heitir því ófrumlega nafni Hryggur á milli gilja og býður upp á litaspjald sem er einstakt á heimsvísu.

Mest er litadýrðin við svokölluð Þrengsli með ljósbrúnum og rauðum litatónum en líka grænum. Fram hjá rennur ísköld Jökulgilskvíslin sem útskýrir af hverju svo fáir hafa komið á þennan „Útsýnisstað Íslands“. En í þurru veðri er Jökulgilskvíslin flestum væð og gangan einhver sú stórkostlegasta á Íslandi.

Lagt er af stað úr Landmannalaugum og gengið í suðaustur að frábæru útsýnisfjalli, Skalla, þar sem sést yfir stóran hluta af miðhálendinu. Þaðan er gengið niður ljósbrúnar eggjar Uppgönguhryggs og yfir Jökulgilskvíslina sem oft nær að hnjám, uns ónefnd gil leiða upp á Hrygg á milli gilja. Þar sést yfir Jökulgil, Sveinsgil og Torfajökul, en í fjarska eru óteljandi gjósandi hverir, enda eitt stærsta háhitasvæði landsins. Skammt frá er sannkallað náttúrugull úr grænu líparíti, Grænihryggur, og framan við hann ljósari Kanilhryggur og Lakkrísstígvélið, bergstandur sem minnir á súkkulaði með lakkrísbitum.

Þarna eru nánast engir göngustígir en Ferðafélag Íslands hefur um árabil brýnt fyrir göngufólki góða umgengni og að trampa t.d. ekki út á Grænahrygg. Það er ótrúlegt en á sjöunda áratugnum voru uppi áform um að byggja þarna háhitavirkjun og framleiða raforku til stóriðju – sem hefði verið stórslys. Sem betur fer myndu slík áform varla ná í gegn í dag, en þau eru engu að síður áminning um einstök svæði hérlendis sem stendur til að virkja eins og Hvalá og Hagavatn – framkvæmdir sem í tímans rás munu þykja álíka fáránlegar.

Það er aldrei gæfulegt að slátra mjólkurkúnni – og það fyrir erlenda stóriðju – enda náttúran þjóðargersemi og auðlind sem við eigum öll og viljum varðveita fyrir komandi kynslóðir.

Það er hressandi að vaða Jökulgilkvíslina. Skammt frá leynist Grænihryggur. MYND/ÓMB
Þrengingar í Jökulgiljum. Staður sem margir telja meðal fallegastu útsýnisstaða á Íslandi. MYND/CHRISTOPHER LUND