Grjóthrúgurnar á Eiðsgranda eru manir, ekki grjóthrúgur. Þetta kom fram í svari Þórólfs Jónssonar, deildarstjóra náttúru og garða, við fyrirspurn Sjálfstæðisflokksins til skipulags- og samgönguráðs.

Grjóthrúgurnar hafa frá upphafi valdið íbúum við strandlengjuna töluverðum ama. Í svari Þórólfs segir að hrúgurnar verði lagaðar, þær lækkaðar og lagaðar betur að landinu. „Manirnar eru ekki grjóthrúgur heldur er þetta uppgröftur úr stígnum og lag af möl yfir. Það var verið að vinna verkið í kappi við veturinn og vannst ekki tími til að huga nægilega vel að frágangi,“ segir í svarinu. „Ákvörðun um mölina var ekki mikið ígrunduð og manirnar höfðu ekki verið hannaðar heldur unnar beint í landið. Manirnar urðu óþarflega háar og sérstaklega ein mönin sem er of há og of brött og lokar sýn úr Rekagranda.“

Vigdís Hauksdóttir, oddviti Miðflokksins, segir að borgin sé loks að viðurkenna mistök.

Vigdís

„Þetta verk er algert flopp. Á Grandanum er fallegur úthagagróður sem þarf ekki að slá sem fellur vel að strandlengjunni og skerðir ekki útsýni íbúa, akandi, gangandi og hjólandi vegfarenda yfir á Snæfellsnesið. Þessi lífsgæði hafa nú verið skert með grjóthrúgunum,“ segir í bókun Vigdísar. „Fram kemur í máli borgarinnar að breyta ætti svæðinu yfir í náttúrulegt yfirbragð með strandgróðri. Þvílíkt dæmalaust rugl. Upp úr grjóthrúgunum sprettur nú njóli og annað illgresi sem á ekkert skylt við strandgróður.“