Margrét Arnardóttir harmónikkuleikari lenti í óskemmtilegu atviki á Sæbraut fyrir stundu, þegar hún ók bíl sínum fyrir aftan opinn vöruflutningabíl sem flutti grjót í tengslum við framkvæmdir á Kirkjusandi.

Grjótið í bílnum fór af stað og lenti undir bíl Margrétar og olli slíku tjóni að hann er óökuhæfur.

„Það sést ekki á vörubílnum að það sé grjót í honum, en það skoppar allt í einu upp, bara hellingur,“ segir Margrét um atvikið. „Þetta kemur úr heiðskíru, og fer þvert yfir veginn og skoppar undir bílnum,“ segir hún. Margrét lýsir tjóninu á bílnum sínum þannig að hljóðkúturinn sé meðal annars laus og dragist með bílnum.

Aðspurð hvort að bílstjóri vörubílsins hafi áttað sig á óhappinu segist hún halda að svo sé ekki.

„Nei ég held ekki, en ég veit það ekki. Þegar svona gerist bregður manni svo mikið, ég fattaði ekki að taka niður bílnúmerið eða neitt, en bíllinn er óökuhæfur.“

Hún segist hafa haft samband við lögregluna í framhaldinu sem benti henni á að fylla út skýrslu og reyna að komast að því hvaða bíll átti í hlut. „Ég veit ekki hvað maður á að skrifa í skýrsluna ef maður veit ekki númerið á vörubílnum,“ segir hún. Margrét segist hafa hringt tvisvar í lögregluna og spurt hvort að hægt væri að fá aðgang að vefmyndavélum en ekki haft erindi sem erfiði.

„Það þarf að passa þetta og þetta er stórhættulegt, og getur verið grafalvarlegt. Við leggjum svo mikið traust á fyritækin og ökumennina og vonandi er þetta atvik áminning til þeirra um alvarleika málsins að öllum verkferlum sé rétt framfylgt. Þetta hefði vel getað farið verr.“

Margrét Arnardóttir harmónikkuleikari vill að verktakar athugi verkferla sína þegar kemur að frágangi ökutækja með grjót.
Fréttablaðið/Ernir