Vaxandi spenna er milli ná­granna­ríkjanna Grikk­lands og Tyrk­lands sem lengi hafa eldað grátt silfur saman þrátt fyrir að vera bæði í NATO. Í gær skaut skip grísku land­helgis­gæslunnar á tyrk­neska flutninga­skipið Anatoli­an sem siglir undir fána Kómora. Skipið var þá statt í Eyja­hafi, um 20 kíló­metra suð­vestur af tyrk­nesku eyjunni Boz­ca­ada. Þetta kemur fram í til­kynningu frá tyrk­nesku land­gæslunni.

Eftir að skotið var á flutninga­­skipið fóru tvö skip land­­gæslunnar á staðinn og þeir grísku sigldu á brott. Gríska land­helgis­­gæslan stað­­festir að skotið hafi verið „við­vörunar­­skotum“ á skip sem „ferðaðist grun­­sam­­lega“ í grískri land­helgi undan eyjunni Les­­bos. Enginn særðist er skotið var á skipið að því er segir í frétt Al Jazeera.

Að hennar sögn meinaði skip­stjóri Anatoli­an grísku land­helgis­gæslunni að fara um borð og skoða það. Grísku skipin sigldu síðan með því að tyrk­nesku land­helginni.

Svæðið þar sem at­vikið átti sér stað er þekkt sem siglinga­leið fyrir fólk sem reynir að komast frá Tyrk­landi til Grikk­lands og Ítalíu. Gríska land­helgis­gæslan segir að hún fari oft um borð í skip sem þykja grun­sam­leg á svæðinu.

Deilur Grikkja og Tyrkja eru ára­tuga gamlar og ganga á­sakanir um víg­ls um brot á loft­helgi. Tyrkir saka Grikki um að „her­setja“ eyjur í Eyja­hafi og beina loft­varnar­skeytum að flug­vélum sínum. Grikkir þver­taka fyrir það.

Anatoli­an við akkeri í Dardanella­sundi í dag.
Fréttablaðið/EPA