Vaxandi spenna er milli nágrannaríkjanna Grikklands og Tyrklands sem lengi hafa eldað grátt silfur saman þrátt fyrir að vera bæði í NATO. Í gær skaut skip grísku landhelgisgæslunnar á tyrkneska flutningaskipið Anatolian sem siglir undir fána Kómora. Skipið var þá statt í Eyjahafi, um 20 kílómetra suðvestur af tyrknesku eyjunni Bozcaada. Þetta kemur fram í tilkynningu frá tyrknesku landgæslunni.
Eftir að skotið var á flutningaskipið fóru tvö skip landgæslunnar á staðinn og þeir grísku sigldu á brott. Gríska landhelgisgæslan staðfestir að skotið hafi verið „viðvörunarskotum“ á skip sem „ferðaðist grunsamlega“ í grískri landhelgi undan eyjunni Lesbos. Enginn særðist er skotið var á skipið að því er segir í frétt Al Jazeera.
Turkey says two Greek cost guard boats opened harassment fire against a Turkish Ro-Ro ship international waters on Saturday. Here is the footage pic.twitter.com/nRlndcs4sQ
— Ragıp Soylu (@ragipsoylu) September 10, 2022
Að hennar sögn meinaði skipstjóri Anatolian grísku landhelgisgæslunni að fara um borð og skoða það. Grísku skipin sigldu síðan með því að tyrknesku landhelginni.
Svæðið þar sem atvikið átti sér stað er þekkt sem siglingaleið fyrir fólk sem reynir að komast frá Tyrklandi til Grikklands og Ítalíu. Gríska landhelgisgæslan segir að hún fari oft um borð í skip sem þykja grunsamleg á svæðinu.
Deilur Grikkja og Tyrkja eru áratuga gamlar og ganga ásakanir um vígls um brot á lofthelgi. Tyrkir saka Grikki um að „hersetja“ eyjur í Eyjahafi og beina loftvarnarskeytum að flugvélum sínum. Grikkir þvertaka fyrir það.
