Þrátt fyrir að hraun­flæði í eld­gosinu í Mera­dölum hafi stöðvast síðast­liðinn sunnu­dag er enn tölu­vert að fólki sem gengur að gos­stöðvunum, að sögn Boga Adolfs­sonar, formanns björgunar­sveitarinnar Þor­bjarnar.

„Það eru svona 1.500 manns á dag á svæðinu, að minnsta kosti,“ segir Bogi. Hann segir teljarann gefa upp minnst 1.500 manns á dag en það séu eigin­lega alltaf fleiri en teljarinn segir.

Flestir sem ganga að gosinu eru ferða­menn, að sögn Boga, en það er þó að finna einn og einn Ís­lending inn á milli.

Bogi segir eitt­hvað vera af því að fólk gangi að gosinu ó­af­vitandi að hraun­flæði hafi stöðvast síðast­liðinn sunnu­dag. „Það er eitt­hvað af því en mjög lítið. Það fer minnkandi,“ segir hann.

„Núna er fólk bara að labba um svæðið,“ segir Bogi og bætir við: „Þegar þú kemur efst þá ertu að horfa á þrjá gíga.“

Fólk hunsar við­varanir björgunar­sveitafólks

Bogi segir fólk ekki átta sig á hættunum sem enn eru á svæðinu. „Fólk er löngu byrjað að ganga út á hraunið. Það var bara daginn eftir gosið, fólk hélt þetta myndi kólna strax en fattar ekki hvað þetta er heitt enn þá,“ segir hann.

Við­varanir frá björgunar­sveitar­fólki stoppi fólkið ekki. „Það segist ekki skilja, yppir öxlum eða svo­leiðis, en þá er það bara lög­regla sem tekur á því,“ segir hann.

„Svo er náttúru­lega gasið, upp­gufurnar frá hrauninu sjálfu eru svo miklar enn og þetta er bara í skál svo ef það er logn þá er mikið gas þarna,“ segir Bogi.

Á hverjum sólar­hring eru fimm til tíu manns frá björgunar­sveitinni Þor­birni á svæðinu, en Bogi segir fleiri auð­vitað klára ef út­kall kemur.

Björgunar­sveitin Þor­björn verður með mann­skap á gos­stöðvunum að minnsta kosti út þessa viku, en á mánu­dag verður staðan metin aftur.