Í­búar Los Angeles munu þurfa að byrja aftur að nota grímur innan­dyra frá og með mið­nætti á laugar­dag, óháð því hvort þeir eru bólu­settir eða ekki, en að­eins rétt rúmur mánuður er frá því að nærri öllum tak­mörkunum var af­létt í Kali­forníu-ríki. Sam­kvæmt reglunum þarf fólk að nota grímu þar sem ekki er hægt að vita bólu­setningar­stöðu ein­stak­linga.

Nýju reglurnar munu þó að­eins ná til Los Angeles, fjöl­mennustu borgar Kali­forníu, en til­mælin eru á skjön við ráð­leggingar al­ríkis­yfir­valda í heil­brigðis­málum, sem og yfir­valda í Kali­forníu, sem hafa talað gegn því að bólu­settir þurfi að nota grímu. Yfir­völd í Los Angeles segja þó marga óbólu­setta einnig hafa sleppt grímunum og því þurfi það sama að gilda um alla.

Ekki hægt að bíða og sjá

Að því er kemur fram í frétt LA Times um málið hefur far­aldurinn verið í upp­sveiflu í borginni og að mati heil­brigðis­yfir­valda þurfa allir að leggja hönd á plóg til að hefta út­breiðslu veirunnar. Flest smit eru af völdum Delta-af­brigðisins svo­kallaða sem er talið tölu­vert meira smitandi en önnur af­brigði.

„Við erum ekki þar sem við þurfum að vera fyrir þær milljónir [íbúa] sem eru í hættu á að smitast hérna í Los Angeles sýslu, og að bíða með að gera eitt­hvað mun reynast of seint út frá því sem við erum að sjá núna,“ sagði Muntu Davis, yfir­maður heil­brigðis­mála Los Angeles, við blaða­menn í gær.

Smitum fjölgað síðustu vikur

Frá því að nærri öllum tak­mörkunum var af­létt í Kali­forníu þann 15. júní síðast­liðinn hefur smitum farið fjölgandi víða í ríkinu, meðal annars í Los Angeles.

Til að mynda voru að meðal­tali 173 ný til­felli á dag áður en tak­mörkunum var af­létt í Los Angeles en eru nú komin upp í 1077 til­felli á dag að meðal­tali og í gær greindust 1537 smit. Þá hefur spítala­inn­lögnum einnig fjölgað um helming frá því áður en að af­léttingarnar tóku gildi. Tíu full­bólu­settir ein­staklingar hafa smitast af Delta-af­brigði veirunnar í sýslunni.

Þrátt fyrir til­mælin um grímu­notkun bólu­settra hafa heil­brigðis­yfir­völd í­trekað að bólu­efnin veiti vernd gegn nýjum af­brigðum kóróna­veirunnar, þar á meðal Delta, og hvetja fólk til að fara í bólu­setningu. Kali­fornía er með hvað bestu töl­fræði bólu­setninga innan Banda­ríkjanna þar sem ríf­lega 60 prósent hafa fengið að minnsta kosti einn skammt af bólu­efni.