Vol­ó­dómír Zelenskíj, grínisti og gamanleikari, vinnur forsetakosningarnar í Úkraínu samkvæmt nýjustu útgönguspám. Hann er þekktur fyrir að leika forseta í vinsælum Netflix-þáttum, Servant of the people, sem fjallar um mann sem er óvart kosinn forseti.

Zelenskíj leikur forseta í sjónvarpsþáttunum, Servant of the People
Netflix

Samkvæmt útgönguspám hefur Zelenskíj sigrað núverandi forsetann, Petró Por­ó­sjen­kó, með yfirburðum, með um 70 prósent fylgi. Reynist útgönguspáin sönn mun Zelenskíj gegna embætti forseta næstu fimm ár.

Marg­ir töldu fram­boð hans grín í fyrstu, en svo virðist sem kosningarbarátta hans hafi haft mikil áhrif á úkraínskan almenning. Stuðning­ur við hann óx hratt, aðallega vegna þess að almenningur var orðinn þreyttur á ríkjandi spillingu og stöðnun í efnahagskerfinu. Þetta kemur fram í grein fréttaveitunnar Bloomberg þar sem má lesa samantekt af viðtölum við kjósendur í Úkraínu.

Por­ó­sjen­kó, núverandi forseti Úkraínu, hefur verið óvinsæll fyrir að taka ekki á spillingarvanda í landinu. Hann var gagnrýndur ´fyrir herlög sem hann setti á í Úkraínu í kjölfar þess að Rússar hertóku þrjú skip sjóhers Úkraínu. Gagnrýnendur hans óttuðust að hann myndi nota herlögin til að koma í veg fyrir forsetakosningarnar.

Por­ó­sjen­kó segir Zelenskíj vera óreyndan og óttast að Vladímír Pútín gæti notfært sér reynslulítinn forseta.

Fréttin hefur verið uppfærð.