Grín­istinn Kirill Vor­onin býr með fjöl­skyldu sinni í Tí­blísi, höfuð­borg Georgíu. Þau eru meðal 700 þúsund rúss­neskra ríkis­borgara sem hafa flúið í kjöl­far stríðsins í Úkraínu.

Rúss­neskir grín­istar eru meðal þeirra sem flýja nú land vegna inn­rásarinnar í Úkraínu. Þeir sem Frétta­blaðið ræddi við vilja ekki snúa aftur vegna kúgunar.

Þann 24. febrúar var Kirill Vor­onin vakinn um miðja nótt á meðan hann svaf í rúmi sínu með konu sinni og eins árs dóttur þeirra. Úkraínskur vinur hans, sem bjó við landa­mæri Rúss­lands, hafði hringt í hann og sagt að flug­völlurinn í bænum hans hefði orðið fyrir sprengju­á­rás. Kirill segir þá báða hafa verið fljóta að átta sig á því hvað hafði gerst.

Ljóst var orðið í augum margra Rússa og Úkraínu­manna að átök myndu brjótast út. Ríkis­stjórnir beggja landa höfðu undir­ritað vopna­hlé árið 2015 sem batt enda á stór­felld átök í austur­hluta Úkraínu eftir fyrstu inn­rás Rússa. Smá­vægi­legir skot­bar­dagar héldu engu að síður á­fram. Rússar voru með yfir hundrað þúsund her­menn við landa­mæri Úkraínu.

Kirill hafði áður starfað sem uppi­standari í Moskvu. Í nokkur ár höfðu margir lista­menn upp­lifað kúgun og rit­skoðun frá stjórn­völdum.

„Við byrjuðum strax að undir­búa brott­flutning. Við sóttum sam­dægurs um vega­bréf fyrir dóttur okkar og það tók um mánuð að fá það í hendurnar. Í lok mars vorum við öll komin um borð í flug­vél á leið frá landinu,“ segir Kirill.

Að sögn Kirill er fjöl­skyldan mjög á­nægð í Georgíu og hyggst búa þar til fram­búðar. Hann er byrjaður að læra georgísku og segir að heima­menn séu mjög hlýir og mót­tæki­legir ef þeim er sýnd virðing. Uppi­stands­ferill Kirill hefur einnig blómstrað á ný. Hann segist skemmta fyrir bæði heima­menn á ensku og líka á rúss­nesku fyrir þann gríðar­lega fjölda af Rússum sem hafa flúið þangað með honum.

Denis Smirn­ov er annar rúss­neskur grín­isti. Hann flúði til Istanbúl. Hann hafði unnið í rúss­nesku sjón­varpi í mörg ár og segir að þættir hans hafi verið mjög rit­skoðaðir.

Uppistandarinn, Denis Smirnov.
Mynd/aðsend

Denis og kona hans höfðu í­hugað að flytja til Tyrk­lands og voru þau lent þar fyrir til­viljun tveimur dögum fyrir stríð. Denis segir þau ekki á leið heim og að á þeim fimm mánuðum sem hann hafi búið í Istanbúl hafi hann fengið meiri að­stoð en á sínum 30 árum í Rúss­landi.

Grín­istinn Oleg Deni­sov hefur einnig kvatt Rúss­land. Oleg, sem býr í Þýska­landi, tók þátt í Reykja­vik Fringe há­tíðinni 2021. Hann segir lang­flesta vini sína frá Moskvu hafa flúið. Þeir sem fóru snemma séu gjarnan friðar­sinnar eða hafi óttast of­sóknir.

Oleg segir að her­kvaðningin hafi þrýst enn meira á fólks­flótta frá Rúss­landi. Það sé megin­á­stæða þess að hann og margir sam­landar hans hafi ekki snúið aftur heim.

Oleg Deni­sov.
Mynd/aðsend