Grínistinn Kirill Voronin býr með fjölskyldu sinni í Tíblísi, höfuðborg Georgíu. Þau eru meðal 700 þúsund rússneskra ríkisborgara sem hafa flúið í kjölfar stríðsins í Úkraínu.
Rússneskir grínistar eru meðal þeirra sem flýja nú land vegna innrásarinnar í Úkraínu. Þeir sem Fréttablaðið ræddi við vilja ekki snúa aftur vegna kúgunar.
Þann 24. febrúar var Kirill Voronin vakinn um miðja nótt á meðan hann svaf í rúmi sínu með konu sinni og eins árs dóttur þeirra. Úkraínskur vinur hans, sem bjó við landamæri Rússlands, hafði hringt í hann og sagt að flugvöllurinn í bænum hans hefði orðið fyrir sprengjuárás. Kirill segir þá báða hafa verið fljóta að átta sig á því hvað hafði gerst.
Ljóst var orðið í augum margra Rússa og Úkraínumanna að átök myndu brjótast út. Ríkisstjórnir beggja landa höfðu undirritað vopnahlé árið 2015 sem batt enda á stórfelld átök í austurhluta Úkraínu eftir fyrstu innrás Rússa. Smávægilegir skotbardagar héldu engu að síður áfram. Rússar voru með yfir hundrað þúsund hermenn við landamæri Úkraínu.
Kirill hafði áður starfað sem uppistandari í Moskvu. Í nokkur ár höfðu margir listamenn upplifað kúgun og ritskoðun frá stjórnvöldum.
„Við byrjuðum strax að undirbúa brottflutning. Við sóttum samdægurs um vegabréf fyrir dóttur okkar og það tók um mánuð að fá það í hendurnar. Í lok mars vorum við öll komin um borð í flugvél á leið frá landinu,“ segir Kirill.
Að sögn Kirill er fjölskyldan mjög ánægð í Georgíu og hyggst búa þar til frambúðar. Hann er byrjaður að læra georgísku og segir að heimamenn séu mjög hlýir og móttækilegir ef þeim er sýnd virðing. Uppistandsferill Kirill hefur einnig blómstrað á ný. Hann segist skemmta fyrir bæði heimamenn á ensku og líka á rússnesku fyrir þann gríðarlega fjölda af Rússum sem hafa flúið þangað með honum.
Denis Smirnov er annar rússneskur grínisti. Hann flúði til Istanbúl. Hann hafði unnið í rússnesku sjónvarpi í mörg ár og segir að þættir hans hafi verið mjög ritskoðaðir.

Denis og kona hans höfðu íhugað að flytja til Tyrklands og voru þau lent þar fyrir tilviljun tveimur dögum fyrir stríð. Denis segir þau ekki á leið heim og að á þeim fimm mánuðum sem hann hafi búið í Istanbúl hafi hann fengið meiri aðstoð en á sínum 30 árum í Rússlandi.
Grínistinn Oleg Denisov hefur einnig kvatt Rússland. Oleg, sem býr í Þýskalandi, tók þátt í Reykjavik Fringe hátíðinni 2021. Hann segir langflesta vini sína frá Moskvu hafa flúið. Þeir sem fóru snemma séu gjarnan friðarsinnar eða hafi óttast ofsóknir.
Oleg segir að herkvaðningin hafi þrýst enn meira á fólksflótta frá Rússlandi. Það sé meginástæða þess að hann og margir samlandar hans hafi ekki snúið aftur heim.
