Grind­víkingar á bæjar­skrif­stofu fögnuðu vel og inni­lega þegar fréttir bárust af nýju gosi í Mera­dal. Fannar Jónas­son, bæjar­stjóri í Grinda­vík, fékk góða heim­sókn fyrr í dag þegar for­seta­hjónin, Guðni og Elísa, heim­sóttu Grind­víkinga.

Eitt um­ræðu­efnið var að sögn Fannars að það yrðu góð skipti ef eld­gos brytist upp á góðum stað ef það myndi losa í­búana við jarð­skjálftana undan­farið. Ör­skömmu síðar braust út eld­gos í Merar­dal. Á besta stað í öryggis­legu til­liti.

„Skjálftarnir virðast undan­farar eld­gosa og það er gott ef við losnum við þá núna,“ segir Fannar í samtali við Fréttablaðið. „Við fyrstu sýn af landi þá virðist þetta góður staður. Þarna er tals­vert mikið sem þarf að fara upp af hrauni áður en það gæti runni að ó­æski­legum stöðum eins og í átt að Suður­strandar­vegi.“

Sam­kvæmt heimildum Frétta­blaðsins braust út fögnuður á bæjar­skrif­stofunni og var splæst í köku í til­efni þess að eld­gosið mun væntan­lega leysa í­búana úr viðjum jarð­skjállftanna.

Fannar segist hafa heyrt í björgunar­sveitar­fólki og lög­reglu við eld­stöðvarnar. Stað­fest sé að heil­mikið hraun þurfi að hlaðast upp áður en hætta skapast.

Þá segir Fannar að það sé magnað að vísinda­sam­fé­lagið hafi spáð fyrir um eld­gosið með mikilli ná­kvæmni. „Það er mikið sem menn hafa lært síðan í mars á síðasta ári, menn geta lesið orðið fjöl­margt úr vís­bendingum og gögnum, það er magnað.“