Illa særður grind­hvalur rak að landi sunnan við Hólma­vík fyrr í dag og er talið að hann hafi drepist af sárum sínum í kvöld.

Jón Hall­dórs­son, land­póstur og ljós­myndari, var að aka út pósti þegar hann kom auga á hvalinn á ströndinni við Brodda­nes I, II og III. „Um þrjú­leytið í dag var hvalurinn kominn á land mikið særður þannig að það foss­blæddi úr honum,“ segir Jón í sam­tali við Frétta­blaðið.

Hvalurinn var illa bitinn.
Mynd/Jón Halldórsson

Illa bitinn

Um tuttugu hvalir til við­bótar voru staddir utar í víkinni. Sam­kvæmt íbúa eins bæjarins var hvala­vaðan komin í víkina snemma um morguninn en þá var hvergi að sjá hval nærri ströndinni.

„Svo virðist vera sem þessi hvalur sem lenti í þessu hafi verið hrakin í land af hinum,“ segir Jón. Hvalurinn hafi verið illa bitinn og sýna myndir að honum blæddi tölu­vert.

Jón telur lík­legt að hvalurinn hafi drepist af sárum sínum í kvöld.

Hvalavaðan var stödd utar í víkinni.
Mynd/Jón Halldórsson