Tíu grindhvalir syntu á land í austanverðum Álftafirði á Snæfellsnesi. Náttúrustofa Vesturlands fékk tilkynningu frá lögreglu um málið í dag og fór starfsfólk strax á vettvang til að reyna að bjarga hvölunum.
Róbert Arnar Stefánsson, líffræðingur og forstöðurmaður Náttúrustofu Vesturlands, segir átta af þeim tíu hafi verið dauðir þegar starfsfólk mætti á staðinn. Þar á meðal hafi verið nýfæddur kálfur.
„Þetta er afar óvenjulegt, að hvalir syndi á land í Álftafirði,“ segir Róbert í samtali við Fréttablaðið.

„Tveir voru enn á lífi þegar við mættum. Einn náði að losa sig sjálfur en annar var fastur. Við náðum að koma honum aftur á flot. En átta hvalir voru þegar dauðir.“
Aðspurður segir Róbert nokkrar kenningar um hvers vegna grindhvalavaða syndi á land.
„Við í raun vitum ekki hvernig þetta gerist. En oftast eltir hópurinn þann sem ræður ferðinni. Leiðtoginn gæti hafa ruglast eitthvað og synt á land og hinir fylgja.“

Hér fyrir neðan má sjá myndband frá Náttúrustofu Vesturlands.