Þórólfur Guðnason, sóttvarnalæknir segir að grímuskyldan verði með seinni skipunum sem verði felld úr gildi. Þetta kom fram í máli hans á upplýsingafundi almannavarna í hádeginu.

„Ég myndi segja að til lengri tíma litið munu landsmenn nota grímur áfram. Ég get ekki betur séð en að það séu bara langflestir alltaf með grímu og líður greinilega mjög vel með þessa grímu úti í búðum og svo framvegis," segir Þórólfur.

Víðir Reynison, yfirlögregluþjónn og Þórólfur Guðnason, sóttvarnalæknir á upplýsingafundi almannavarna í dag.
Ljósmynd/Almannavarnir

Þá segir hann að slakað verði á ýmsu öðru áður en að grímuskyldan verði afnumin. Grímuskylda var sett á hérlendis þann 31. júlí 2020 og hefur því verið í gildi í tæpa sjö mánuði.

Þórólfur mun skila Svandísi Svavarsdóttur, heilbrigðisráðherra, tillögum að tilslökunum innanlands um helgina eða fljótlega eftir helgi. Hann vildi lítið gefa upp um hvað gæti leynst í tillögunum. Farið var í varfærnar tilslakanir á samkomutakmörkunum þann 8. febrúar síðastliðinn sem gilda til og með 3.mars næstkomandi.

Hann segir jafnframt að það felist meiri áhætta í ákveðinni starfsemi heldur en annarri sem verði að fylgjast sérstaklega vel með. „Við sáum að þriðja bylgjan byrjaði inn á krám og á líkamsræktarstöðvum og þetta eru þeir staðir sem við höfum flokkað sem áhætttustaði. Við þurfum að opna og aflétta mjög hægt á þessari starfsemi," segir Þórólfur.