Bretar hafa hert reglur um komu far­þega inn í landið vegna nýja Ó­míkron-af­brigðisins. Þá verður grímu­skylda í öllum verslunum og al­mennings­sam­göngum frá og með byrjun næstu viku.

Allir komu­far­þegar til Bret­lands verða að fara í PCR-próf við komuna til landsins og þurfa þeir að vera í sótt­kví þangað til niðurstaða berst, jafn­vel þótt þeir eru full­bólu­settir.

Boris John­son, for­sætis­ráð­herra Bret­lands, kynnti nýju reglurnar í sjón­varps­á­varpi fyrr í kvöld en BBC greinir frá. John­son sagði að þrátt fyrir þessar hertu að­gerðir verða jólin í Bret­landi mun betri í ár en í fyrra.

John­son sagði að hertu að­gerðirnar núna væru tíma­bundnar og var­úðar­skyni en tveir greindust með Ó­míkron- af­brigðið í Bret­landi í dag.

Á­samt því að herða reglurnar bættu Bretar við fjórum löndum frá sunnan­verði Afríku á svo­kallaðan rauðan lista en löndin eru Malaví, Mó­sambík, Zam­bía og Angóla. Fyrir voru Suður-Afríka, Namibía, Lesótó, Zimba­bwe, Botswana og Eswatíni á listanum.

Boris Johnson niðurlútur í sjónvarpsávarpi sínu.
Fréttablaðið/Getty

Í á­varpi sínu sagði John­son að ríkis­stjórnin væri ekki að skoða út­göngu­bann en að reglurnar yrðu endur­skoðaðar eftir þrjár vikur.

Allir sem ætla til Bret­lands þurfa að taka PCR-próf innan tveggja daga frá komu til landsins alveg sama frá hvaða landi þeir koma. Þeir þurfa að vera í tveggja daga sótt­kví þar til niður­staða berst.

Mun þetta vera breyting frá fyrri reglum þar komu­far­þegar þurftu einungis að skila inn annað hvort PCR prófi eða hrað­prófi við komuna og sluppu í kjöl­farið við sótt­kví.