Svandís Svavarsdóttir, heilbrigðisráðherra tilkynnti fyrir helgi tilslakanir á gildandi takmörkunum vegna kórónuveirunnar sem tekur gildi þann 18. nóvember. Þá eru þeir einstaklingar sem fengið hafa Covid-19 og lokið einangrun undanskildir grímuskyldu, sýni þeir fram á gilt vottorð þess efnis.

Verslanir Haga verða þó áfram með óbreytta grímuskyldu. Í tilkynningu frá félaginu segir,

„Til að huga að öryggi starfsfólks og viðskiptavina og minnka álag í verslunum, verða viðskiptavinir í verslunum Haga áfram skyldugir til að bera grímu, hvort sem þeir hafi fengið COVID-19 eður ei."

Verslanir sem um ræðir eru Bónus, Hagkaup, Útilíf, Zara, Reykjavíkur Apótek, Rekstrarland og Stórkaup, sem og þjónustustöðvar Olís. Grímuskyldan mun standa yfir til og með 2. desember næstkomandi.

„Mikið hefur mætt á framlínustarfsfólki í verslunum síðustu mánuði og teljum við að hin nýja reglugerð verði til þess að auka álagið til muna. Til að minnka það álag og efla samstöðu höfum við ákveðið að halda grímuskyldu í okkar verslunum óbreyttri frá því sem áður var og vonum að viðskiptavinir sýni þessu fyrirkomulagi skilning. Hingað til höfum við unnið vel með stjórnvöldum og fylgt allra þeirra reglum í hvívetna. Með nýrri reglugerð um grímunotkun er þó verið að setja verslunarfólk í erfiða stöðu og til að koma í veg fyrir óþarfa spennu og árekstra í verslunum okkar tókum við þessa ákvörðun með hag starfsfólks og viðskiptavina okkar að leiðarljósi. Við vonum að viðskiptavinir taki vel í framtakið því að okkar mati er samhent átak og öflugar sóttvarnir lykillinn að árangri,“ segir Finnur Oddsson, forstjóri Haga í tilkynningu.