Grímur Gríms­son, fyrr­verandi yfir­maður mið­lægrar rann­sóknar­deildar lög­reglunnar á höfuð­borgar­svæðisins og nú­verandi tengsla­full­trúi Ís­lands hjá Europol, er á meðal um­sækjanda um starf ríkis­lög­reglu­stjóra. Þetta stað­festir hann í sam­tali við Frétta­blaðið.

Í sam­tali við Frétta­blaðið segist hann sækja um stöðuna á grundvelli hæfnis­á­kvæðis í lögum, en samkvæmt lögreglulögum skal umsækjandi hafa „hafa lokið fullnaðarprófi í lögfræði með embættis- eða meistaraprófi eða háskólaprófi í þeirri grein sem metið verður jafngilt.“ Grímur er menntaður við­skipta­fræðingur og hefur starfað sem lög­reglu­maður í þrjá­tíu ár.

„Ég er svo­lítið að láta reyna á á­kvæði en ég er ekki lög­fræðingur. Það er á­kvæði þarna um hæfi sem ég vil láta reyna á. En ég hef ekki fengið nein svör enn þá um hvort það stendur.“

Grímur vakti mikla at­hygli í leitinni að Birnu Brjáns­dóttur en hann gegndi þá stöðu yfir­manns mið­lægrar rann­sóknar­deildar og kom fram fyrir hönd lög­reglunnar í fjöl­miðlum.

Árið 2018 tók hann við stöðu tengsla­full­trúa Ís­lands hjá Europol af Karli Steinari Vals­syni, sem tók við stöðu Gríms hjá mið­lægri rann­sóknar­deild Lög­reglunnar á höfuð­borgar­svæðisins.

Listi yfir um­sækj­endur hefur ekki verið birtur, en komið hefur fram að Sig­ríður Björk Guð­jóns­dóttir, lög­reglu­stjóri höfuð­borgar­svæðisins hefur sótt um starfið. Þá hefur Páll Winkel, fangelsismálastjóri einnig sótt um stöðuna.

Haraldur Johannesen hafði sinnt starfi ríkislögreglustjóra í 22 ár þegar hann sagði starfi sínu lausi í byrjun desember síðastliðins. Styr hafði staðið um störf hans eftir að hann sagði í viðtali við Morgunblaðið að fjölmiðlar hefðu borið út rangfærslur og rógburð gegn sér.