Alma Möller landlæknir ítrekaði á upplýsingafundi almannavarna í dag að ekki væri mælt með almennri grímunotkun heldur ætti aðeins að nota grímur ef ekki er hægt að tryggja tveggja metra fjarlægð milli einstaklinga.

Í auglýsingu heilbrigðisráðherra, sem tekur gildi á morgun, kemur fram að á samkomum og vinnustöðum, sem eðli síns vegna geta ekki tryggt tveggja metra regluna, eigi allir að nota grímur. Gildir það meðal annars um heilbrigðisþjónustu, á hárgreiðslustofum og nuddstofum, sem og í almenningssamgöngum þar sem ferð varir lengur en 30 mínútur.

„Grímur gera gagn með því að grípa dropa sem koma úr öndunarvegi og munnvatni þess sem ber grímuna og þá berast vatnsdroparnir síður til annarra. Þær minnka líka líkur á því að sá sem er með grímuna fái veiruna í sig,“ sagði Alma á fundinum en tók fram að grímur kæmu ekki í stað almennra smitvarna sem allir þurfa að fylgja.

Nauðsynlegt að kynna sér leiðbeiningar

Þá sagði hún mjög mikilvægt að þegar fólk þarf að nota grímur að það noti þær rétt þannig grímurnar hylji bæði munn og nef. Einnig þurfi fólk að þvo og spritta hendur áður en gríman er sett upp og aftur eftir að hún er tekin niður. Fólk þurfi að snerti grímuna sem minnst og henda henni eftir notkun, ef um einnota grímu er að ræða.

Að sögn Ölmu eru einkum um þrjár gerðir af grímum að ræða, en þær eru einnota, sem þarf að skipta um ef þær blotna eða að minnsta kosti á fjögurra klukkutíma fresti, fjölnota úr taui, sem þarf að þrífa daglega og verða að vera í þremur lögum, og að lokum eru sérstakar grímur sem eingöngu eru ætlaðar heilbrigðisstarfsfólki.

„Ég vil hvetja almenning til að kynna sér þessar leiðbeiningar til að vanda sig við notkun. Við leggjum áherslu á að grímur eru ekki töfralausn og leysa okkur alls ekki undan þessum einstaklingsbundnum smitvörnum,“ sagði Alma að lokum.