Mynd náðist af Donald Trump Banda­ríkja­for­seta með and­lits­grímu við heim­sókn hans í verk­smiðju Ford í Michigan-fylki í gær. Í fylkinu er skylda að klæðast andlitsgrímu meðal almennings en for­setinn hafði tekið hafa af sér áður en hann talaði við fjölmiðla eftir skoðunarferð um verksmiðjuna.


„Ég var með grímu áðan,“ sagði Trump í sam­tali við blaða­menn þegar hann kom úr skoðunar­ferð sinni. Hann var þá spurður hvers vegna hann væri ekki með grímu. „Ég var með hana hérna á bak við á svæði þar sem þeir vildu helst að allir væru með grímu. Ég vildi bara ekki gera fjöl­miðlum það til geðs að sjá mig með hana,“ sagði hann.


Fjöl­miðlar í Banda­ríkjunum höfðu velt fyrir sér hvort for­setinn yrði með grímu við heim­sóknina. Þegar Trump birtist eftir skoðunar­ferðina grímu­laus gagn­rýndu hann margir og sagði ríkis­sak­sóknari fylkisins hann haga sér eins og smá­barn.


For­setinn sagðist hafa litið vel út með grímuna, sem er dökkblá og sér­merkt Hvíta húsinu. Hann var með hana í plast­poka og sýndi blaða­mönnum. „Ég held ég hafi litið betur út með hana en nú er ég að flytja ræðu og því er ég ekki með hana á mér,“ sagði Trump. Myndir af honum með grímuna í verk­smiðjunni birtust svo í dag.