Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu var kölluð út laust eftir miðnætti í nótt vegna samkvæmis menntaskólanema á Seltjarnarnesi.

Vísir greinir frá því að nokkrir grímuklæddir einstaklingar hafi mætt á bjórkvöld nemanna og að lögreglan hafi sent fjölmennt lið á staðinn. Að sögn vitnis hafi þeir verið vopnaðir hnífum og talið sig eiga eitthvað óuppgert við einn einstakling á staðnum.

Í dagbók lögreglu kemur fram að mikill fjöldi ungs fólks undir tvítugu hafi verið að skemmta sér og töluverð ölvun hafi verið á staðnum. Samkvæmið hafi verið leyst upp sökum ungs aldurs fjölda gesta en þeir eru sagðir hafa verið á aldrinum 16 til 17 ára.

Lögreglan greinir ekki fá grímuklæddum einstaklingum né að lögregla hafi sent fjölmennt lið á staðinn. Heimildir Vísis herma að lögreglu hafi tekist að skerast í leikinn áður en til alvarlegra átaka kom.

Þá hefur Vísir myndband undir höndum þar sem sjá má á annan tug lögreglumanna á svæðinu. Ekki er ljóst hvort einhver hafi verið handtekinn vegna málsins.

Lögreglan var með talsverðan viðbúnað í miðbæ Reykjavíkur í gær eftir að skilaboð fóru á dreifingu manna á milli á samfélagsmiðlum í vikunni.

Í skilaboðunum var fólk meðal annars hvatt til að halda sig frá miðbænum um helgina vegna mögulegrar hefndarárás vegna stunguárásarinnar á Bankastræti Club síðustu helgi. Árásinni yrði mögulega beint að saklausum borgurum.