Hlaupið í Gígju­kvíslum virðist vera í rénun og há­marks­rennsli þegar náð. Þá er enginn gos­ó­ró­leiki sjáan­legur í Gríms­vötnum.

„Það hefur hægt á siginu og hlaupóróinn fer minnkandi," segir Helga Rós Helga­dóttir, náttúru­vá­r­sér­fræðingur hjá Veður­stofunni. Mesta mæling á rennsli var 2800 rúm­metrar á sekúndu í há­deginu í dag. Hlaupið er núna í rénun.

Ís­hellan í Gríms­vötnum hefur sigið um 75 metra undan­farna eina og hálfa viku. Veður­stofan fundaði um stöðuna klukkan tvö í dag og sendi frá sér til­kynningu um fjögur­leytið.

Ís­hellan hefur sigið um 75 metra

Sam­kvæmt til­kynningunni mældist rennsli í Gígju­kvísl um 2800 rúm­metrar á sekúndu um há­degið í dag en það mældist um 2600 rúm­metrar á sekúndu síð­degis í gær. Þá hefur raf­leiðni haldist nánast ó­breytt frá því í gær.

„Ís­hellan hefur sigið um alls um 75m klukkan 14 í dag og hægt hefur veru­lega á siginu. Mælingar sýna einnig að tals­vert hefur dregið úr hlaupóróa undir jökli frá því að ó­róinn náði há­marki í nótt. Hvoru tveggja eru vís­bendingar um að Gríms­vötn hafi tæmt sig af hlaup­vatni að mestu,“ segir í til­kynningunni.

Að sögn Veður­stofunnar tekur það vana­lega hlaup­vatn um 6 til 10 klukku­stundir að berast úr vötnunum niður að jökul­sporði Skeiðar­ár­jökuls og út í Gígju­kvísl.

„Því má vera að hlaupið í far­vegi Gígju­kvíslar hafi þegar náð há­marki. Það verður hins­vegar ekki ljóst fyrr en hægt verður að gera nýjar rennslis­mælingar. Vatna­mælinga­menn á vegum Veður­stofunnar eru að störfum við Gígju­kvísl en að­stæður til mælinga eru mjög slæmar vegna veðurs og því er ekki víst að nýjar mælingar berist fyrr en á morgun, mánu­dag.“