Gríska herforingjastjórnin tók við völdum 21. apríl 1967 þegar ofurstinn Georgios Papadopoulos framdi valdarán eftir að ljóst var orðið að vinstristjórn Georgios Papandreou myndi fara með sigur í kosningum.

Herforingjastjórnin hugðist endurheimta stöðugleika í Grikklandi en stjórnarfar hennar einkenndist af harðræði, pyntingum og Grikkjum í útlegð.

Vöxtur varð í efnahag Grikklands og ákveðinn stöðugleiki en það var á kostnað skerts tjáningarfrelsis. Dagblöð í landinu voru ritskoðuð og stjórnarandstæðingar handteknir og fangelsaðir.

Stjórnsemin var svo víðtæk að skólastjórum landsins var skipað að sjá til þess að nemendur sæktu kirkju alla sunnudaga og reiðiköst í umferðinni gátu leitt til bílprófs­missis í fjóra mánuði.

"Heiður og dýrð til þeirra sem þjáðust".
Mynd/Spessi
Ljósmyndarinn Spessi var viðstaddur mótmælin og lýsti mikilli spennu í andrúmsloftinu.
Mynd/Ernir Eyjólfsson

Fyrstu stóru mótmælin gegn herforingjastjórninni urðu er laganemar mótmæltu herkvaðningu. Andstaðan jókst næstu mánuði og í nóvember breyttist námsmannaverkfall í uppreisn gegn stjórninni. Verkamenn og bændur streymdu til Aþenu til að styðja við námsmennina sem höfðu girt sig af við Poly­tech­nic-háskólann.

Upp úr sauð þegar hermenn á skriðdreka óku niður hlið háskólans snemma að morgni 17. nóvember 1973. Mótmælendur höfðu þá sagt að til stæði að steypa herforingjunum af stóli. Talið er að nær 40 hafi látið lífið þennan dag en opinber rannsókn staðfesti aðeins 24 dauðsföll.

Íslenski ljósmyndarinn Sigurþór Hallbjörnsson, Spessi, var við mótmælin. Spessi sem er nú í Aþenu segir að atvikið hafi lengi verið talin niðurlæging fyrir Grikki.

Haldin eru mótmæli árlega til að ítreka að slíkir atburðir megi aldrei verða aftur í „vöggu lýðræðis“. Minningarmótmælin hafa einnig verið blóðug. Til að mynda létust tveir í mótmælum árið 1980.

Óeirðarlögregla og mótmælendur mætast fyrir utan bandaríska sendiráðið í Aþenu.
Mynd/Spessi

Mótmælaganga endar við bandaríska sendiráðið, en það voru bandarísk stjórnvöld sem studdu við bakið á herforingjastjórninni. Segir Spessi að Bandaríkjamenn séu ekki í miklum metum hjá Grikkjum á þessum degi. Hundruð óeirðalögreglumanna voru fyrir framan brynvarðar rútur sem girtu af sendiráðið örlagadaginn fyrrnefnda 1973.

Spessi segir sér hafa verið ráðlagt að vera með gasgrímu. Hann hafi séð marga blaðamenn og ljósmyndara með hjálma og allan búnað.

„Hefðu þeir skotið af táragasi þá ætlaði ég mér að fá lánaðan úðabrúsa sem vinnur á móti gasinu, en vandinn er að þá getur maður ekki andað. Ég var samt meira viðbúinn að hlaupa í burtu. Það leit þannig út á tímabili að það myndi sjóða upp úr en svo gerðist það ekki.“