Samkynhneigðir og tvíkynhneigðir karlmenn mega gefa blóð í Grikklandi í fyrsta sinn frá algjöru banni frá níunda áratugnum í kjölfar AIDS faraldursins.

Thanos Plevris, heilbrigðisráðherra Grikklands, og Mina Gaga vararáðherra undirrituðu reglugerð á mánudag um að afnema bannið. Nú þurfa blóðgjafar ekki að taka fram kynhneigð sína á eyðiblaði fyrir blóðgjöf.

Þetta er óvenju framsækin ákvörðun af Plevris, sem er ekki þekktur fyrir að vera mikill jafnréttissinni. Hann er sonur nýnasistans Konstantinos Plevris, sem var þekktur fyrir gyðindaandúð, rasisma og hommahatur svo fátt eitt sé nefnt. Sjálfur er Thanos öfgahægrimaður sem hefur verið gagnrýndur fyrir bæði múslimahatur og gyðingaandúð.

Mina Gaga sagði í yfirlýsingu í síðustu viku að dregið hafi verulega úr blóðgjöfum vegna heimsfaraldurs Covid og að blóðbankar landsins þyrftu 600 þúsund einingar af blóði á ári. Þá virðist ákvörðun ráðherranna hafa sprottið af algjörri nauðsyn en ekki endilega vegna mismununar.

Mina Gaga vararáðherra.

Svandís lofaði breytingum

Til stendur að breyta reglum um blóðgjöf hér á landi en lítið hefur þokast í málinu frá því að Svandís Svavarsdóttir, fyrrverandi heilbrigðisráðherra, setti drög að breytingu á reglugerð um söfnun, meðferð, varðveislu og dreifingu blóðs og viðauka IV í Samráðsgátt stjórnvalda til umsagnar. Þetta var eitt af hennar síðustu verkum áður fyrir Alþingiskosningarnar

Breytingin felur í sér að óheimilt verður að mismuna blóðgjöfum á grundvelli ómálefnalegra sjónarmiða, svo sem kyns, kynhneigðar, uppruna eða stöðu að öðru leyti. Á Samráðsgáttinni má sjá að umsagnarfrestur er liðinn og niðurstöður hafa verið í vinnslu frá september í fyrra.

Úreltar reglur frá níunda áratugnum

Samkvæmt núgildandi reglum á Íslandi mega hinsegin karlmenn, þ.e. karlmenn sem hafa haft samfarir við aðra karlmenn, ekki gefa blóð. Regluna má rekja til Alnæmisfaraldursins þegar HIV-veiran dreifði sér um hinsegin samfélagið í Norður-Ameríku og svo víðar um allan heim. Þá settu flestar þjóðar í heiminum strangar reglur um að samkynhneigðir menn og aðrir karlmenn sem stunduðu kynlíf við aðra karlmenn mættu ekki gefa blóð.

Þá mætti segja að fordómar og ranghugmyndir hafi oft ráðið för í mörgum umræðum um HIV og alnæmi. Snemma í faraldrinum, áður en almennilegar rannsóknir hófust á veirunni, var sjúkdómurinn kallaður GRID eða „gay-related immune deficiency“. Í dag er vitað að allir geta smitast af HIV veirunni og skiptir kynhneigð, þjóðerni eða aldur ekki neinu máli hvað varðar smit.