Heimsmethafinn Sigríður Ýr Unnarsdóttir lenti í ótrúlegu ævintýri síðastliðinn föstudag, þegar gríðarstór grindhvalavaða synti upp að henni og hópnum sem hún var með í róðrarbrettaferð á Pollinum á Akureyri.

„Ég er búin að vera að róa á hverjum degi frá því í byrjun júní og hef ekki orðið vör við neitt nema fugla og marglyttur. Ég var búin að sjá hvalina úr fjarlægð tvisvar í sumar, ávallt úr töluverðri fjarlægð. Fyrst á föstudaginn syntu þeir til okkar og á okkur,“ segir Sigríður. Hún var með hópi starfsmanna úr fyrirtækinu Five Degrees í starfsmannaferð á róðrarbrettum. Þá vissi hún að hvalirnir væru í firðinum en hafði aldrei séð þá koma svo nálægt áður.

„Þeir byrjuðu á að koma rétt upp með bakið til að anda, en svo stöldruðu þeir við. Þeir komu upp, stoppuðu og störðu á okkur. Manni fannst maður tengjast þeim, eins og þeir væru að heilsa okkur. Við lögðumst niður á brettin til að ná betra jafnvægi og reyndum að halda ró okkar. Við settum ekki árina út í og vorum ekki að teygja okkur í þá. Svo þegar nokkrir hvalirnir voru búnir að kíkja á okkur, þá fóru þeir að leika sér við okkur og dansa í kringum okkur. Það stóð yfir í hálftíma til 40 mínútur. Við flutum með straumnum og þeir syntu og hringsnérust í kringum okkur. Þetta var ótrúlegt,“ segir Sigríður.

„Ég var ekkert hrædd, þetta var svolítið sturlað og óraunverulegt, en okkur stóð aldrei ógn af þeim. Þeir voru ekki að glefsa í okkur, þeir voru að heilsa upp á okkur. Þeir rákust stundum utan í brettin okkar en það var greinilegt að það var óvart. Þeir voru ekki að reyna að meiða okkur. Við vorum bara í hláturs- og geðshræringarkasti og aldrei hrædd. Við vorum bara í einhverri vímu meðan á þessu stóð.“

Eyfirski fréttavefurinn Vikudagur greindi frá því í síðustu viku að allstór grindhvalavaða hefði sést á Pollinum á Akureyri.

Sigríður telur að hvalirnir hafi verið í kringum 30 eða 40 í vöðunni, en seinna heyrði hún frá þyrluflugmanni sem náði myndum af vöðunni að um 100-120 grindhvali hefði verið að ræða.

Heimsmetabók Guinness staðfesti heimsmet sem Sigríður setti á svokölluðu „pocketbike“ mótorhjóli árið 2016. Þá ferðaðist hún 2.500 kílómetra á hjólinu, lengra en nokkur annar hefur gert.

Sigríður Ýr er stofnandi og eigandi Venture North og býður upp á nýjung í útivistarafþreyingu á Norðurlandi sem nefnist róðrarbretti. Um er að ræða stórt bretti sem hægt er að róa á standandi, sitjandi eða á hnjánum.