Jarðskjálfti fannst víða á landinu klukkan 13:43 í dag. Skjálftinn stóð yfir í nokkurn tíma og hafa þó nokkrir eftirskjálftar mælst í kjölfarið, sá stærsti af stærðinni 3,0. Upptök skjálftans voru sex kílómetra vestan við Kleifarvatn, skammt frá Krýsuvík.

Upplýsingar hafa verið á reiki um stærð skjálftans. Samkvæmt fyrstu niðurstöðum á vef Veðurstofunnar var skjálftinn 5,5 að stærð en seinni niðurstöður benda til þess að skjálftinn hafi verið 4,4 að stærð. Samkvæmt tilkynningu almannavarnadeildar ríkislögreglustjóra var skjálftinn 5,6 að stærð og höfðu um 50 eftirskjálftar mælst klukkan 14:17.

Kristín Jónsdóttir, náttúruvársérfræðingur á Veðurstofunni, segir í samtali við Fréttablaðið að endanleg niðurstaða sé sú að skjálftinn hafi verið 5,6 að stærð. Aðspurð um stærð eftirskjálftanna segir hún að þó nokkrir hafi verið yfir 3 að stærð.

Jóhann K. Jóhannsson, samskiptastjóri almannavarna, hafði ekki fengið upplýsingar mun meiðsl á fólki eða skemmdir þegar Fréttablaðið náði tali af honum um tvö leytið. „Við erum að kalla eftir upplýsingum alls staðar þar sem skjálftinn hefur fundist,“ segir Jóhann og bætir við að samhæfingarstöð almannavarna hafi verið virkjuð í Skógarhlíð.

Fréttin hefur verið uppfærð.

Uppfært 14:17: Skjálftinn sem varð kl. 13:43 var af stærð M5.6 í Núpshlíðarhálsi, 5 km vestur af Seltúni. Yfir 50...

Posted by Almannavarnadeild ríkislögreglustjóra on Tuesday, October 20, 2020
Mynd/Veðurstofa Íslands