Mikill munur er eftir hverfum og landshlutum og stærð húsnæðis á því hve mikið það kostar að leigja.

Meðal leiguverð á hvern fermetra í desember í fyrra á landinu var á bilinu 1990 krónur til tæplega 3300 krónur miðað við tveggja herberja íbúðir. Langódýrast er að leigja á Suðurnesjum en langdýrast í vesturhluta reykjavíkur, vestan Kringlumýrarbrautar og Seltjarnarness. Næst dýrast er að leigja í Kópavogi og á milli Kringlumýrarbrautar og Reykjanesbrautar í Reykjavík, eða rúmlega 3100 krónur á fermeterinn.

Nokkuð hagstætt er að leigja á Akureyri og á Vesturlandi þar sem fermeterinn fyrir 2ja herbergja íbúð kostar tæplega 2200 krónur.

Þetta kemur fram í upplýsingum Þjóðskrár Íslands.

Þá er svipað verð í Breiðholti og í hverfum Grafarvogs, Grafarholts, Árbæ og Norðlingaholti og í Úlfarsárdag eða rúmlega 2900 krónur á fermeter fyrir tveggja herbergja húsnæði.

Leiguverð fyrir þriggja herbergja íbúðir er heldur lægra fyrir hvern fermeter en fyrir hinar minni. Á Suðurnesjum þar sem verð er lægst er verðið 1860 krónur en í vesturhluta Reykjavíkur langhæst af öllum stöðum landsins eða 2837 krónur á fermeter.

Langhæsta leiguverð er greitt fyrir Stúdíó íbúðir. Verð á fermeter eru 4550 krónur í Garðabæ og Hafnarfirði og vel yfir 4800 krónur í vesturbæ borgarinnar.