Smári Sigurðsson, fyrrum formaður Slysavarnafélagsins Landsbjargar, er nýjasti gesturinn í Útkallsþætti Óttars Sveinssonar á Hringbraut. Hann ræðir um að stundum reynist það björgunarfólki ofviða að koma að slysum. Í þættinum ræðir hann afar erfiða aðkomu að slysi í Bergvatnskvísl þar sem þrjár stelpur og kona dóu eftir að bíl hvolfdi í ánni í júlí 1989.
Smári lýsir einnig ,,sigrum í starfinu“ - ,,kikkinu“ sem björgunarfólk upplifir þegar búið er að leita að fólki, jafnvel dögum saman, áður en það finnst svo – jafnvel óvænt - á lífi. Smári fór eitt sinn í mikla svaðilför með tveimur öðrum ,,vélsleðakúbeinum“ úr Eyjafirði að leita átta Dalvíkinga sem var saknað í uppi í fjöllum Eyjafjarðar. ,,Líkamlega erfiðasta verkefni lífsins. Það var eins og jörðin hefði gleypt þá, við vorum búnir að leita alls staðar,“ segir Smári sem á að baki 45 ára björgunarsveitarferil.
Dalvíkingarnir, höfðu farið aðra leið en umheimurinn taldi á vélsleðum sínum áður en ofsaveður skall á. Eftir það höfðu þeir, á afviknum stað í mikilli hæð á Nýjabæjarfjalli, grafið sig í fönn og búið til snjóbyrgi þar sem þeir urðu að láta fyrir berast í þreifandi blindhríð. Á meðan voru aðstandendur þeirra og mikill fjöldi leitarfólks í nagandi óvissu um afdrif þeirra.
Smári lýsir því í Útkallsþættinum hvernig það var að berjast áfram á vélsleðunum í glórulausum byl og finna svo loks vélsleða Dalvíkingana og svo þá sjálfa að fram komna inni í snjóbyrginu.
Hér fyrir neðan er hlekkur á Útkallsþáttinn í heild.