Gríðar­legar skemmdir voru unnar á úti­vistar­svæðinu Guð­mundar­lundi í Kópa­vogi í nótt. Starfs­menn Skóg­ræktar­fé­lags Kópa­vogs komu að svæðinu í morgun í al­gerri rúst. Búið var að rífa í sundur og kremja gerðar­legar stál­rusla­tunnur, en ljóst er að talsverða krafta hefur þurft til og var þá einnig búið að brjóta glugga og klósett­skálar á gámaklósetti svæðisins.

Kristinn H. Þor­steins­son, fram­kvæmda­stjóri Skóg­ræktar­fé­lags Kópa­vogs, segir ljóst að þarna hafi fólk komið saman til að djamma í nótt, en mikið af bjór- og vín­flöskum lágu á víð og dreif um svæðið. Ekki er vitað hverjir voru þar á ferð eða hversu margir en það má velta því upp hvort einnig hafi verið framið brot á sam­komu­banni sem miðast nú við 20 manns. Í það minnsta virðist fólk hafa vantað stað til að djamma á en allir vín­veitinga­stöðum hefur verið gert að loka klukkan 21 á kvöldin.

Mikla krafta hefur þurft til að kremja stálruslatunnurnar.

Kristinn segir að verið sé að fara yfir mynd­efni öryggis­mynda­véla á svæðinu. Lög­regla er með málið til skoðunar.

Miklar skemmdir voru unnar á rusla­tunnunum og salernunum en einnig var búið að brjóta í sundur úti­borð og bekki á svæðinu. Inni á salernunum var búið að rífa klósett og krana í sundur.

Fólk slegið í morgun

Að­spurður hvort hann telji að þarna hafi verið ung­lingar á ferð telur Kristinn svo ekki vera. „Þetta hafa þá að minnsta kosti verið mjög sterkir ung­lingar. Það hefur þurft mjög mikla krafta til að beygja og skemma stál­rusla­tunnurnar hérna,“ segir hann. „Það virðast gríðar­leg átök hafa átt sér stað hérna í nótt.“

Borð eru í sérstökum áhættuhópi þegar kemur að brjáluðum partýjum. Þetta plastborð hefur ekki mátt sín mikils móti þrjótunum, sem fóru létt með að kremja stálruslatunnur.

„Þetta er auð­vitað fyrst og fremst sorg­legt. Það er eitt að geta komið hérna og skemmt sér en að þurfa að eyði­leggja allt er annað. Guð­mundar­lundur er fal­legt úti­vistar­svæði sem að Kópa­vogs­búar eru mjög dug­legir að sækja. Hingað koma til að mynda allir grunn­skólar í Kópa­vogi reglu­lega,“ heldur Kristinn á­fram.

„Það var komið fólk hérna strax snemma í morgun til að fara í göngur og það var auð­vitað bara slegið að sjá svæðið.“ Kristinn segist þá ekki vera búinn að gera mat á tjóninu eftir nóttina en segir það tals­vert og ljóst að það fari að minnsta kosti yfir hundrað þúsundin.

Einhver tók sig til og braut þessa klósettskál frá veggnum