Samtökin '78 lýsa yfir vonbrigðum með ákvörðun Sundsambands Íslands, að greiða atkvæði með tillögu um að banna trans konum að keppa í sundi á afreksstigi í kvennaflokki.

Sundsamband Íslands átti ekki samtal við fulltrúa Samtakanna '78 áður ákvörðunin var tekin að sögn Tótlu I. Sæmundsdóttur, fræðslustýri Samtakanna '78.

„Þetta er gríðarlega sorglegt og í andstöðu við stefnu ÍSÍ,“ segir Tótla í samtali við Fréttablaðið.

Alþjóðasundsambandið, FINA, var með atkvæðagreiðslu meðal aðildarsambanda sinna um helgina um hvort banna ætti trans fólki að keppa í karla- og kvennaflokki. Alls tóku 152 sambönd þátt atkvæðagreiðslunni og hlaut tillagan samþykki hjá 71 prósent fundagesta, meðan þeirra sem samþykktu voru fulltrúar Íslands.

Samkvæmt tillögunni þurfa einstaklingar að hafa gengist undir kynleiðréttingu fyrir tólf ára aldur til að geta tekið þátt í keppnum á afreksstigi. Fyrri tillögur um þak á testósteróni er því ekki lengur í gildi. Tótla segir þetta óvenjulega þróun.

Algjör viðsnúningur

Svo virðist sem afstaða Sundsambandsins sé algjörlega í andstöðu við ÍSÍ, sem hefur síðustu ár unnið náið með Samtökunum '78 í fræðslustarfsemi. Aðspurð hvort Sundsambandið hafi átt samtal við sérfræðinga Samtakanna áður en svo afrifarík ákvörðun var tekin svarar Tótla neitandi. „Það var ekkert samtal.“ Samtökin og ÍSI hafa verið að vinna saman síðustu ár í að bæta réttindi trans íþróttafólks og hafa sérstaklega trans barna.

Íþróttabandalag Reykjavíkur, fjölmennasta íþróttahéraðið innan ÍSÍ, fékk nýlega Regnbogavottun og ÍSÍ gaf nýlega út bækling um trans börn og íþróttir og hafa verið með virka fræðslustarfsemi hjá aðildarfélögum ÍSÍ.