Á­lyktun Ís­lands og Þýska­lands sem sam­þykkt var af Mann­réttinda­ráði Sam­einuðu þjóðanna fyrr í dag er gríðar­lega mikil­væg að mati Þór­dísar Kol­brúnar R. Gylfa­dóttur, utan­ríkis­ráð­herra.

Á­lyktunin fól í sér að sam­þykkt verði að stofna ó­háða og sjálf­stæða rann­sóknar­nefnd sem safna á upp­lýsingum og draga þá til á­byrgðar sem hafa of­sótt frið­sama mót­mælendur í Íran undan­farnar vikur.

„Það að fá svona á­lyktun sam­þykkta, með svona sterku orða­lagi og þessari skýru efnis­á­kvörðun um að stofna þessa ó­háðu og sjálf­stæðu rann­sóknar­nefnd, það er árangur,“ segir Þór­dís Kol­brún í sam­tali við Frétta­blaðið.

Hún segir það hafa verið lykil­at­riði að rann­sóknar­nefndin sé óháð og sjálf­stæð. „Út frá öllum mæli­kvörðum er það al­gjört lykil­at­riði.“

Niðurstaðan töluvert afgerandi

At­kvæða­greiðsla um á­lyktunina fór fram síð­degis í dag en hún var sam­þykkt með 25 at­kvæðum. 6 greiddu at­kvæði gegn og 16 sátu hjá.

Þór­dís Kol­brún segir niður­stöðu at­kvæða­greiðslunnar hafa verið tölu­vert meira af­gerandi en þau þorðu að vona. „En þetta er líka af­rakstur mikillar vinnu innan ráðsins og eru gríðar­lega sterk skila­boð til þeirra sem eru að berjast fyrir grund­vallar­réttindum í Íran,“ segir hún.

Skila­boð á­lyktunarinnar eru skýr, að sögn Þór­dísar Kol­brúnar. „Þetta eru skýr skila­boð til þeirra sem eru að fórna og hætta lífi sínu á degi hverjum til Íran. Þetta eru skýr skila­boð til kvenna, til stúlkna, drengja og manna, sem eru að taka þátt í mót­mælunum í Íran.“

Sýnir hvað Ísland getur gert

Þór­dís Kol­brún segir á­lyktunina vera gott dæmi um hluti sem Ís­land getur gert, sem væru heldur flóknari og erfiðari fyrir önnur ríki að gera.

„Þetta er oft og tíðum mjög flókið pólitískt sam­spil. Við kölluðum eftir fundinum og unnum þetta með Þýska­landi, það að hafa stór­veldi með í ráðum skiptir auð­vitað gríðar­lega miklu máli,“ segir Þór­dís Kol­brún og bætir við að það sendi skila­boð að utan­ríkis­ráð­herrar beggja ríkjanna séu ungir kven­kyns­ráð­herrar.

„Við áttum tölu­vert frum­kvæði í þessu og það sýnir hvar og með hvaða hætti Ís­land getur beitt sér í þágu þessa sem við stöndum fyrir og trúum á og beitum okkur fyrir, að finna leiðir til þess að gera það, gera gagn og hjálpa mál­staðnum og fólki sem er að taka slaginn sem ekkert okkar á að þurfa að taka. Mér finnst það skipta raun­veru­legu máli og þetta sam­starf með Þýska­landi var mjög gott og sömu­leiðis sam­starfið við önnur vina- og banda­lags­ríki,“ segir Þór­dís Kol­brún.

„Við erum að gefa fólki von, stuðning og styrk og við erum að taka á­kvörðun sem í felst raun­veru­leg að­gerð sem gerir gagn. Mér finnst það skipta máli,“ bætir hún við.

Hér má sjá hvernig ríki Mannréttindaráðsins kusu með ályktuninni.
Mynd/Stjórnarráð Íslands