Talsmaður Matvælaáætlunar Sameinuðu þjóðanna sagði á þriðjudag að 13 milljónir manna víðs vegar um Afríkuhornið standi frammi fyrir alvarlegu hungri. Kallað er eftir tafarlausri aðstoð til að forðast hungursneyð í líkingu við þá sem átti sér stað fyrir áratug og kostaði hundruð þúsunda manna lífið.

Þrjú misheppnuð rigningartímabil hafa skapað þurrustu aðstæður í Afríkuhorninu síðan á níunda áratugnum, þar sem spár um úrkomu undir meðallagi munu auka þjáningar á næstu mánuðum. Afríkuhornið er óformlegt heiti yfir austasta hluta álfunnar og heyra löndin Súdan, Úganda, Kenya, Eþíópía, Erítrea og Sómalía undir svæðið.

Bændur flýja í neyðarbúðir

„Uppskeran er eyðilögð, búfénaður er að drepast og hungrið eykst þar sem endurteknir þurrkar hafa áhrif á Afríkuhornið,“ sagði Michael Dunford, svæðisstjóri á svæðisskrifstofu WFP, matvælaáætlunar Sameinuðu þjóðanna fyrir Austur-Afríku, í viðtali við fréttaveitu Reuters.

Búfénaður drepst og því hafa aðstæður þvingað þúsundir bænda í neyðarbúðir.

"Við höfum aldrei upplifað þetta áður, við sjáum bara rykstorma núna. Við erum hrædd um að þeir muni grafa okkur öll og verða grafreiturinn okkar," sagði Mohamed Adem frá Sómalíuhéraði Eþíópíu í myndbandi frá WFP.

Upptökur úr lofti sem teknar voru í nágrenninu sýndu gríðarstórt rykugt kjarrland stráð nautgripahræjum. Í þorpinu Kebele batt fólk reipi undir búk mjólkurkúa til að reisa þær á fætur.

Bandaríski tónlistarmaðurinn The Weeknd, er formlegur sendiherra Matvælaáætlunar Sameinuðu þjóðanna. Myndin var tekin á formlegum kynningarviðburði í nóvember.
Mynd/Getty

„Þrátt fyrir að ástandið sé ekki algjörlega stjórnlaust, þá eru miklir þurrkar á svæðum í Sómalíu og sumum hlutum Oromia og suðurhluta héraða,“ sagði Legesse Tulu, talsmaður Eþíópíustjórnar, við Reuters. „Þannig að viðvörun WFP er alveg rétt.“

Ógnar heilsu og lífi tugþúsunda barna

Þurrkarnir eru einnig að breiðast út til hluta Kenýa, suðurhluta Sómalíu og Erítreu. Á árunum 2010 til 2012 dóu um 250.000 manns úr hungri í Sómalíu, helmingur þeirra börn.

Mohamed Fall hjá Barnahjálp Sameinuðu þjóðanna varaði við því að mörg börn myndu deyja eða þjást af andlegum eða líkamlegum skaða ævilangt, ef ekki yrði brugðist við ástandinu þegar í stað.

„Við þurfum að bregðast við núna til að koma í veg fyrir stórslys,“ sagði hann í símaviðtali við Reuters frá Naíróbí og segir að 5,5 milljónum barna í löndunum fjórum sé nú ógnað af bráðri vannæringu.

Matvælaáætlun Sameinuðu þjóðanna, sem hlaut friðarverðlaun Nóbels árið 2020, kynnir svæðisbundna viðbragðsáætlun sína fyrir Afríkuhornið í vikunni og kallar eftir 327 milljónum dala. UNICEF krefst 123 milljóna dala.