Hinn landskunni kylfingur og fyrrverandi Íslandsmeistari í golfi, Þorsteinn Hallgrímsson, glímir enn við eftirköst Covid veirunnar, rúmu ári eftir að hann veiktist. Með góðu móti nær hann nú að vinna einungis í 4 til 6 klukkutíma á viku. Hann er ennþá án lyktar-og bragðskyns sem hann missti þegar hann veiktist.

Það var þann 30.mars í fyrra sem líf Þorsteins átti eftir að taka dramatískum breytingum.

Ég lá bara í rúminu í fósturstellingunni

Þorsteinn fékk mikinn magakrampa en ekki þau einkenni sem helst var talað um, s.s. háan hita og hálsbólgu. „Ég var alltaf með þá tilfinningu að ég þyrfti að kasta upp en náði samt ekkert að kasta upp og eftir bara litla vatnssopa þá fór allt í steik í maganum. „Ég lá bara í rúminu í fósturstellingunni.“

Þurfti hjálp út úr bílnum

Hann var beðinn um að koma á Covid deildina, var spurður hvort hann treysti sér til að keyra þangað. „Orkan var þannig að ég þurfi bara að hringja þegar ég var kominn og spyrja hvort það gæti einhver hjálpað mér úr bílnum,“ segir Þorsteinn og að dómgreindin hafi ekkert verið í lagi „Vitleysan var að keyra, maður bara les ekki stöðuna rétt.“

Þorsteinn hafði engar efasemdir um að hann myndi ná heilsu á ný, nokkrum vikum síðar. Hann hafði verið lagður inn á Covid deild og svo útskrifaður mánaðarmótin apríl – maí.

„Þá fer maður bara að tilmælum lækna, byrja bara að labba hundrað metra í einu og ég sem spila mikið golf og hef labbað mikið ætlaði að labba 200 metra en bara eftir hundrað metra þá fór ég til baka heim og svaf í tvo og hálfan tíma,“ segir Þorsteinn og þannig hefur staðan verið í mjög marga mánuði.

Þakkar fyrir sextíu prósent orku

Hann metur það svo að á góðum degi hafi hann um 60 prósent af fyrri orku. „Ég fagna sextíu prósentunum, ég er mjög ánægður með það.“

„Það sem maður er búinn að læra er að horfa á batann, ekki frá degi til dags eða frá viku til viku heldur á mánaðarbili“, segir hann og tekur dæmi um hvað hann gat í ágústmánuði í fyrra. „Þá gat ég labbað kannski fimm hundruð metra án þess að þurfa að setjast niður og hvíla mig. Ég labba núma tvo og hálfan kílómeter, tvisvar á dag og maður er alltaf að prófa og ögra sé. Ég prófaði að ganga 3,3 kílómetra einn daginn og það voru vandræði næstu tvo dagana á eftir. “

Núorðið tekur Þorsteinn út refsingu ef hann reynir of mikið á sig, dagarnir á eftir verða slæmir vegna orkuleysis.

Mynd/Hringbraut

Þorsteinn var til að mynda að lýsa meistarakeppni í golfi um liðna helgi, tvo daga í röð í nokkra tíma í senn. Á mánudeginum var hann mjög þreklítill “Ég sofnaði snemma, náði ekki einu sinni kvöldfréttunum. En ég vissi að ef maður gerir meira en maður hefur inneign fyrir þá fær maður það í hausinn.“

Með góðu móti getur hann unnið frá fjórum til sex klukkustundir á viku. Hann segir mánaðardvöl á Heilsustofnuninni í Hveragerði hafi reynst sér vel, verandi mjög atorkusamur maður að eðlisfari. Þar hafi hann lært að gera hlutina öðruvísi og íhuga vel hvernig hann hegðar sér. „En það gerir þetta enginn fyrir mann, maður fær leiðbeiningar og maður þarf að fara eftir þeim,“ segir hann og hefur ekki misst sína eðlislægu bjartsýni.

Óvissa um bata framundan

„Ég óska ég engum að vera í þessari stöðu,“ segir hann en honum finnist oft á tíðum umræðan slæm, þegar verið er að tala um að þetta sé ekki neitt og lítið gert úr því að sýkjast af Covid. Hann segir að talið sé að einn af hverjum tíu fá einhvers konar eftirköst. „Það vill enginn verða þessi eini af þessum tíu,“ segir hann.

Hægt er að horfa á Fréttavaktina í heild sinni með því að smella hér.