Mikil aukning hefur verið á tilkynningum um kynferðisbrot gegn börnum á netinu síðustu mánuði. Bylgja Hrönn Baldursdóttir, aðstoðaryfirlögregluþjónn hjá kynferðisbrotadeild lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu segir í samtali við Fréttablaðið að slík mál hafi aldrei verið fleiri á borði lögreglunnar. „Við erum bara með toppinn af ísjakanum til rannsóknar hérna núna. Ég býst við því að það komi mun fleiri mál á okkar borð á næstunni," segir Bylgja.

Líkt og greint var frá í fyrradag þá hafa komið upp nokkur tilvik á síðustu vikum þar sem fullorðnir aðilar hafa verið að greiða ungmennum á grunnskólaaldri peninga fyrir kynferðislegar ljósmyndir. Leið þeirra að samskiptum við ungmennin er í flestum tilvikum í gegnum spjall á netinu og þá helst Snapchat og Instagram auk þess sem Tik tok og appið Telegram hafa verið nefnd. Samskiptin eiga sér stað þannig að börnum eru boðnar á bilinu 5.000-10.000 krónur fyrir myndina og fer upphæðin eftir því hvað sést á myndinni og hversu skýr hún er. Greiðslur hafa farið fram í gegnum öpp eins og Aur og Kass.

Rann­sók lög­reglunnar á málinu er á frum­stigi, en slík rann­sókn hefur ekki verið fram­kvæmd hjá lög­reglunni áður.
Flestar til­kynningar hafa borist frá for­eldrum, sem hafa m.a. komist að því að börnin hafa verið að fá pening lagðan inn á sig frá ó­kunnugum aðilum. Allur gangur er á því hverjir eru að óska eftir myndunum að sögn Bylgju.

Hægt að rekja allar greiðslur

Bylgja segir að sam­fé­lags­miðlar barnanna séu skoðaðir með sam­þykki for­eldra en einnig aðilanna sem hafa óska eftir myndunum. Lög­regla hefur ekki sett sig í sam­band við greiðsluöppin Aur og Kass en það stendur til að vinna að rann­sókn málsins í sam­starfi við fyrirtækin.

Aur og Kass eru greiðslumiðlunaröpp sem bjóða not­endum sínum að fram­kvæma milli­færslur í gegnum síma­númer. Not­endur þurfa því ekki að vita reiknis­númer við­komandi aðila til að geta lagt inn á hann pening.
Aur er í meiri­hluta­eigu Nova en Kass er í eigu Ís­lands­banka.

Sverrir Hreiðars­son, fram­kvæmda­stjóri Aur segir að lög­regla hafi ekki verið í sambandi við fyrirtækið og Aur ekki sóst eftir upplýsingum um málin heldur.

„Allir okkar not­endur eru skráðir með kenni­tölum og greiðslu­upp­lýsingum og allar færslur eru rekjan­legar. Í raun er betra að í málum sem þessum að greiðslur fari í gegnum raf­rænar lausnar því þá er auð­veldara að hafa uppi á brota­mönnum. Sama hvernig brotin eru," segir Sverrir. Hann segir það sé engin hulin slóð í gegnum appið og hægt að fá að­gang að öllum færslum.

Unnur B. John­sen,vöru­eig­andi Kass tekur í svipaðan streng og Sverrir en allar færslur sem fara í gegnum Kass eru rekjan­legar og enginn vafi á því frá hverjum greiðslurnar berast.
„Við höfðum sam­band við lög­regluna í gær í kjöl­far um­fjöllunar til að leita upp­lýsinga. Mér skilst að Kass tengist ekki þeim málum sem hafa verið að koma við sögu en þetta er auð­vitað al­var­legt mál og við munum halda á­fram að fylgjast með þessu hjá okkur, segir Unnur.

Óskandi að hægt væri að loka á millifærslur

Bylgja segir að þetta muni ein­falda rann­sókn lög­reglu á málinu, en til að geta nálgast upp­lýsingar um greiðendur þurfi lög­reglan að sjálf­sögðu að hafa á­kveðna laga­heimild í höndunum. Að­spurð hvort lög­regla hafi í­hugað að láta loka á slíkar greiðslur sem berast til barna segir Bylgja það ó­skandi. „Mér þykir ó­lík­legt að það sé hægt, en það væri ó­skandi."

Sverrir, hjá Kass segir að eins og er sé ekki hægt að loka á milli­færslur fyrir­fram frá á­kveðnum einst­ka­lingum en brjóti notandi á skil­málum greiðslu­appsins sé honum neitaður að­gangur og geti ekki fram­kvæmt milli­færslur.

Lög­regla vill kom því á framfæri við for­eldra að fylgjast með net­notkun barna sinna og við hverja þeir eru í sam­bandi við á samfélagsmiðlum. Ef börn segja frá eða þið hafið upplýsingar eða grun um mál af þessum toga þá getur verið um að ræða brot á hegningarlögum. Því ber að tilkynna málið tafarlaust til lögreglu og barnaverndar í síma 411 9200.