Sænska bar­áttu­konan og um­hverfis­verndar­sinninn, hin 16 ára gamla Greta Thun­berg, er komin til New York en skip hennar lagði akkeri við Conan eyju snemma í morgun, að því er fram kemur á vef Guar­dian.

Ferða­lag Gretu hefur undan­farnar tvær vikur vakið heims­at­hygli enda Greta ekki á þeim buxunum að taka þátt í þeim mikla kol­efnis­út­blæstri sem felst í ferða­lagi flug­véla. Hefur hún haldið fylgj­endum sínum upp­lýstum um ferða­lagið á Twitter en skúta Gretu var að sjálf­sögðu knúin með sólar­orku.

Í um­fjöllun Guar­dian kemur fram að marg­menni hafi beðið bar­áttu­konunar í New York en Thun­berg er eins og margir kannast við upp­hafs­kona hina svo­kölluðu skóla­verk­falla þar sem ungt fólk hvaða­næva úr heiminum hefur mót­mælt að­gerðar­leysi stjórn­valda í loft­lags­málum.

„Ég hef fylgst með henni síðasta árið eða svo og er mjög á­huga­samur um stöff hennar og hvernig henni hefur tekist að virkja ungt fólk með sér,“ segir Richard Walser, tölvunar­fræðingur sem ferðaðist frá Connecticut til New York til að taka á móti Gretu.

Greta mun taka þátt í loft­lags­ráð­stefnu á vegum Sam­einuðu þjóðanna sem fram fer í New York í næsta mánuði. Ferða­lag hennar hófst þann 14. ágúst síðast­liðinn í Plymouth á Eng­landi. Þá ætlar hún sér að halda næst til Chile þar sem leið­togar heimsins munu hittast til við­ræðna. Hún segist ekki hafa á­kveðið hvernig hún ætli að koma sér heim.