Loftslagsaðgerðasinninn frá Svíþjóð, Greta Thunberg, fékk bandarísk ungmenni með sér í lið þegar hún tók þátt í loftslagsverkfalli við höfuðstöðvar Sameinuðu Þjóðanna á árbökkum Manhattan í dag. Kröfðust aðgerðarsinnar, ungir sem aldnir, auknum aðgerðum ráðamanna til að sporna við loftslagsvandnum.

Hvatti hún „alla sem væru annt um framtíð okkar“ til að leggja niður störf og taka þátt í verkfallsaðgerðunum.

Nokkur hundruð ungmenni fylktu liði ásamt Gretu að höfuðstöðvunum og báru mótmælaspjöld sem á stóð meðal annars: „Hjálp það er kviknað í heimili mínu.“ „Ef þið látið ekki eins og fullorðið fólk, munum við gera það“ og „vísindi ekki þögn“ (e. science not silence).

Voru einhverjir íklæddir bolum sem á stóð „In Greta we trust“ eða „við treystum Gretu“.

Greta ásamt mótmælendum við höfuðstöðvar Sameinuðu þjóðanna í New York í dag.
Fréttablaðið/AFP

23. september næstkomandi mun Thunberg tala á alþjóðlegri ráðstefnu um loftslagsmál þegar leiðtogafundur Sameinuðu þjóðanna verðu haldinn í New York. Thunberg vakti heimsathygli með því að sigla til New York frá Svíþjóð á sólarknúnum báti og tók ferðin um tvær vikur.

Aðalritari Sameinuðu þjóðanna, Antonio Guterres, hefur tekið undir með Thunberg um að heimurinn standi frammi fyrir neyðarástandi í loftslagsmálum og hefur skorað á þjóðarleiðtoga að koma á ráðstefnuna í næstu viku með raunhæf áform um hvernig leysa megi úr vandanum.

„Við bara verðum að aftra hitastigi heims frá því að hækka umfram 1,5 gráðu á celsíus fyrir lok aldarinnar og vera kolefnishlutlaus árið 2050 ásamt því að hafa 45 prósent minnkun á útblæstri fyrir 2030,“ sagði Guterres við blaðamenn í vikunni samkvæmt fréttastofu Reuters.

Hefur Thunberg tekið sér árs frí úr skóla til þess að berjast fyrir loftslagsherferð sinni í Ameríku með viðkomu í Mexíkó og Kanada og ætlar hún sér að mæta á loftslagsráðstefnu Sameinuðu þjóðanna í Santiago í Chile í desember. Stefnir hún að sjálfsögðu á að komast þangað án þess að nota flugsamgöngur.

Hér má sjá Gretu í New York:

View this post on Instagram

Grass!

A post shared by Greta Thunberg (@gretathunberg) on