Loftslagsfrömuðurinn Greta Thunberg auglýsir nú eftir fari yfir Atlantshafið til þess að komast á Cop 25 loftslagsráðstefnuna sem haldin er á vegum UNFCCC, skrifstofu Rammasáttmála Sameinuðu þjóðanna um loftslagsbreytingar, eftir að hún var færð frá Santiago í Chile til Madrídar á Spáni. Sebastian Piñera forseti Chile greindi frá því í vikunni að Chile gæti ekki haldið ráðstefnuna vegna mikilla óeirða sem geisa nú í Santiago. Í dag tilkynnti Patricia Espinosa, yfirmaður UNFCCC að Cop 25 ráðstefnan hefði verið flutt til Madrídar á Spáni.

Segir Greta á samfélagsmiðlum: „Það kemur á daginn að ég er búinn að ferðast yfir hálfan hnöttinn í vitlausa átt. Nú þarf ég að finna leið til að komast yfir Atlantshafið í nóvember. Ef einhver getur hjálpað mér að finna fararmáta verð ég ævinlega þakklát.“

Segir Greta jafnframt að henni þyki leitt að hafa ekki getað heimsótt Suður og Mið-Ameríku í þetta skiptið, hún hafi mikið hlakkað til þess. En þetta snúist að sjálfsögðu ekki um hana, hennar upplifanir eða hvert hana langi til að ferðast heldur um það að við stöndum frammi fyrir loftslags og umhverfis neyðarástandi.