Greta Thunberg hefur beðist afsökunar á óheppilegum ummælum sínum sem hún lét falla á loftslagsmótmælum í Turin á Ítalíu á föstudaginn. Þar talaði Greta um að það þyrfti að „stilla þjóðarleiðtogum upp við vegg“, en orðatiltækið hefur á ensku verið notað yfir það að aftökusveit taki einhvern af lífi.

Misheppnuð beinþýðing

„Svona gerist þegar maður er að spinna ræður á öðru tungumáli en manns eigin,“ sagði Greta í afsökunarbeiðni sinni í gær. Hún benti þar á að orðatiltækið, sem hún beinþýddi úr sænsku, hefði alls ekkert að gera með aftökusveitir á hennar móðurmáli. Þar hefur það svipaða merkingu og í íslensku „að stilla einhverjum upp við vegg“, þ.e. að setja einhverjum óþægilega afarkosti.

Greta hélt til Turin til að taka þátt í mótmælunum eftir að hafa setið loftslagsráðstefnu Sameinuðu þjóðanna í Madrid í vikunni. Þar sagðist hún óttast að ráðstefnan myndi ekki leiða til neinna aðgerða af hálfu þjóðarleiðtoga og hvatti aðgerðarsinna áfram í baráttu sinni.

„Þjóðarleiðtogar eru enn að reyna að skjótast undan ábyrgð en við verðum að sjá til þess að þeir geti það ekki,“ sagði Greta í ræðunni. „Við munum sjá til þess að þeim veðri stillt upp við vegg og að þeir verði að sinna sínum skyldum til að tryggja framtíð okkar allra.“ Nokkuð óheppilegt orðalag í ljósi þess fyrrnefnda; að það að stilla einhverjum upp við vegg á ensku þýðir í raun að láta taka viðkomandi af lífi.

Att ställa någon mot väggen

Eftir að umræður um orðaval Gretu höfðu skapast á netinu ákvað ungi loftslagsaðgerðasinninn að skýra málið á Twitter. „Í gær sagði ég að við yrðum að gera þjóðarleiðtogana ábyrga fyrir vandanum og notaði það óheppilega orðaval að „stilla þeim upp við vegg,“ sagði hún. „Á sænsku: 'att ställa någon mot väggen' þýðir að gera einhvern ábyrgan.“

„Ég biðst auðvitað afsökunar ef að einhver hefur misskilið mig. Ég get ekki lagt nógu mikla áherslu á það að ég, og allir sem koma að loftslagsverkföllunum, erum algerlega á móti öllu ofbeldi, sama í hvaða mynd það er. Það ætti að segja sig sjálft en ég segi það samt hérna,“ sagði hún að lokum.

Frétt BBC um málið.