„Ég grét held ég í 40 mínútur þegar ég frétti af þessu,“ segir Ingi­björg Arn­gríms­dóttir sem birti á­takan­lega frá­sögn af föður sínum á Face­book-síðu sinni í gær­kvöldi. Ó­hætt er að segja að færslan hafi vakið mikla at­hygli en í henni segir hún frá niður­lægjandi fram­komu sem sam­starfs­fé­lagar föður hennar sýndu honum í vinnunni.

Ingi­björg veitti Frétta­blaðinu góð­fús­legt leyfi til að fjalla um efni færslunnar.

Lenti í slysi 2018

Í færslunni segir Ingi­björg að faðir hennar, Arn­grímur Jóns­son, hafi starfað sem sjó­maður í 44 ár, eða til ársins 2017 að hann fór að vinna á bryggjunni hjá Eim­skip. Þar hefur hann starfað síðan hann sagði skilið við sjó­mennskuna og líkað vel, enda starfað hjá fyrir­tækinu í að verða sau­tján ár.

„Eins og margir vita lenti pabbi í hræði­legu slysi 2018 þar sem hann lá á gjör­gæslu í u.þ.b viku og við tók langt og strangt bata­ferli . Hann mátti ekki vinna í rúm­lega eitt ár og það tekur mikið á menn sem hafa unnið alla sína tíð. En pabbi glímir enn við eftir­köst af slysinu í dag,“ segir hún.

Fékk afhentan bikar

Hún bætir við að í haust hafi heilsu föður hennar tekið að hraka og hann verið lagður fjórum sinnum inn á sjúkra­hús. Tekur hún fram að hann liggi inni núna en í gær mætti hann til vinnu hálf slappur enda þeirra gerðar að hann vill harka hlutina af sér í stað þess að kveinka sér. Ingi­björg segir svo frá því sem gerðist þegar faðir hennar mætti til vinnu.

„Þegar pabbi fer inn í skúrinn í vinnunni taka á móti honum karlar og hann boðinn vel­kominn til vinnu með bikar sem stendur á: „Til hamingju þú mættir í 4 daga til vinnu í síðustu viku”. Síðan stóðu allir og hlógu að honum. Niður­lægingin svo mikil að mér sárnaði inn að hjarta­rótum vitandi af pabba í þessum að­stæðum,“ segir Ingi­björg og bætir við að faðir hennar myndi gera allt til að vera við hesta­heilsu. Þá sé það nógu erfitt fyrir fjöl­skylduna að horfa upp á hann svona veikan.

Ómögulegur án vinnunar

Ingi­björg segist hafa grátið í 40 mínútur þegar hún frétti af þessu.

„Að það sé í al­vörunni tekið svona á móti honum eftir allt sem undan er gengið, hann leikur sér ekki af því að mæta ekki í vinnuna, að vinna er það skemmti­legasta sem hann gerir og heldur honum gangandi, án vinnunnar er hann ó­mögu­legur,“ segir hún og bætir við að faðir hennar sé dug­legasti maður sem hún hefur kynnst. Vonar hún að sam­starfs­fé­lagar hans sjái að sér.

„Þeir vita ekkert hvað hefur farið fram inn um veggi spítalans og hafa ekki hug­mynd um hvort það sem hann er að kljást við sé gott eða illt. Veit að þetta er ekki vinnu­um­hverfi sem Eim­skip stendur fyrir enda höfum við bara góða reynslu af því, en svona fram­koma eftir öll þessi ár og erfiðis­vinnu er sorg­leg og mikið vona ég að það verði tekið á þessu sem allra fyrst,“ segir Ingi­björg sem endaði færsluna á þessum orðum:

„Að­gát skal höfð í nær­veru sálar maður veit aldrei hvað ná­unginn er að kljást við. Ein­elti á vinnu­stað er aldrei í lagi og ég vona inni­lega að heilsa pabba fari batnandi sem allra fyrst því það er nr 1,2 og 3.“

Frétta­blaðið hafði sam­band við Eim­skip vegna málsins. Fékk blaðið þær upp­lýsingar að málið væri litið al­var­legum augum og það væri til skoðunar innan fyrir­tækisins.

Viðbót kl. 12:28: Eimskip segir að brugðist verði við eineltinu og hefur Arngrímur verið beðinn afsökunar. „Brugðist verður við því at­viki sem upp hefur komið núna af festu og á­byrgð. Okkur þykir málið mjög leitt og hefur við­komandi aðili verið beðinn af­sökunar fyrir hönd fé­lagsins,“ segir Edda Rut Björnsdóttir, markaðs- og samskiptastjóri fyrirtækisins.