Jóna Guðrún Ólafsdóttir, móðir stúlku sem send var á Laugaland, segir dóttur sína hafa komið „helmingi verri“ frá meðfeðrarheimilinu og lýsir ofbeldi sem dóttir hennar var beitt þar. Hún greindi frá þessu í kvöldfréttum RÚV, en þar kemur fram að dótturinni hafi ekki hafa tekist að fóta sig í lífinu eftir dvölina á heimilinu.

„Auðvitað er ég reið. Dóttir mín, sem er 36 ára gömul, er búin að vera í basli í öll þessi ár.“ segir Jóna.

Dóttirinn var fjórtán ára þegar hún fór á meðferðarheimilið á Varpholti sem fluttist síðar yfir á Laugaland, eftir að hafa sýnt áhættuhegðun á tólf til þrettán ára aldri.

„Mér var sagt að þetta væri það besta sem gæti komið fyrir hana, að hafa fengið pláss þarna inni.“ segir móðirin, sem lýsir því að dvöl dóttur sinnar hafi í sífellu orðið erfiðari og erfiðari.

„Svo kemur að því í Laugalandi að hann ræðst á hana, hrindir henni niður stiga. Og það er hringt í mig og ég flýg norður og fer með hana á heilsugæsluna.“ segir Jóna og bætir við að hún hafi verið ákveðin í því að taka dótturina af heimilinu, en þegar þær mættu á heimilið daginn eftir að sækja dót dótturinnar hafi barnaverndarfulltrúi og forstöðumaður heimilisins tekið á móti þeim.

„Þeir segja við mig að það yrði það vitlausasta sem ég muni gera, að taka hana úr meðferð.“ er haft eftir Jónu sem segir: „Og ég tek þá ákvörðun að skilja hana eftir. Ég man þetta eins og þetta hafi gerst í gær. Ég grét alla leiðina frá Laugalandi nánast að flugstöðinni,“

Í kvöldfréttum RÚV lýsir Jóna frekari lífskjörum barnanna á Laugalandi. „Þannig að hún kom í alvörunni helmingi verri til baka heldur en þegar hún fór. Hann braut þau niður algjörlega,“ segir Jóna, sem gagnrýnir barnaverndaryfirvöld og vill að fólk viðurkenni mistök sín í málinu.