„Þeir sem eru staddir á Grens­ás­deild eru staddir þar vegna á­falla. Þau hafa misst mikið í lífinu og við þurfum að gera staðinn eins fal­legan og vist­legan og hægt er,“ segir Guð­rún Péturs­dóttir, for­maður stjórnar Holl­vina Grens­ás­deildar, en sam­tökin brosa út að eyrum þessa dagana.

Annars vegar vegna þess að ný­verið var sam­þykkt breyting á deili­skipu­lagi og mun um fjögur þúsund fer­metra ný­bygging rísa vestan megin við nú­verandi aðal­byggingu og hins vegar mun fal­legur garður verða búinn til þar sem skjól­stæðingar verða þjálfaðir úti við. Garðurinn kostar um 66 milljónir króna sem Holl­vina­sam­tökin borga meðal annars úr sínum sjóði.

Guð­rún segir að ný­byggingin sé eitt­hvað sem sé búið að undir­búa vel í tölu­verðan tíma enda henti hús­næðið ekki lengur fyrir starf­semina. Þar er gert ráð fyrir 19 nýjum ein­stak­lings­legu­rýmum. Með­ferðar­stofur sjúk­linga verða ekki færri en 32 á deildunum tveimur, 13 í nú­verandi hús­næði legu­deildar og 19 í ný­byggingu.

Nú­verandi hús­næði Grens­ás­deildar stenst ekki grund­vallar­kröfur til endur­hæfingar, auk þess sem ný þekking í endur­hæfingu mænu­skaðaðra og mikið slasaðra ein­stak­linga kallar á aukin hjálpar­tæki og búnað sem ekki rúmast í nú­verandi hús­næði.

Guð­rún bendir á að það sé mat þeirra sem gerst þekkja til að best sé að byggja nýtt og sér­hæft hús­næði sem styður við starf­semina.

Stjórn Hollvina.

Draumurinn að verða að veruleika

Birgir Ingi­mars­son, sem einnig situr í stjórn, segir að garðurinn verði ekki minni bylting. „Þetta er verk­efni upp á 66 milljónir sem við kostum. Þarna fara skjól­stæðingar út með þjálfurum. Ég sjálfur fékk heila­blóð­fall 2011 og var inni á Grens­ás­deildinni í heilt sumar og hrökk í gang af starfs­fólkinu,“ segir hann þakk­látur. „Þeir sem hafa notið þessarar þjónustu vita að á Grens­ás­deild gerast krafta­verkin.“

Endur­hæfingar­deildin var opnuð árið 1973 en hús­næðið var upp­haf­lega hannað sem hjúkrunar­heimili. Heildar­kostnaður við ný­bygginguna er á­ætlaður þrír milljarðar króna. Birgir bendir á að það sé á­huga­mál Holl­vinanna að stór­bæta hús­næði deildarinnar, því Grens­ás­deild hafi búið við allt­of þröngt hús­næði, sem hamli allri starf­semi. „Við erum búin að hanga á húninum hjá heil­brigðis­ráð­herra í mörg ár og loksins er draumurinn að verða að veru­leika.“