Farsóttastofnun Evrópu, ECDC, og Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin, WHO, kalla eftir frekari HIV-prófunum í Evrópu. Samkvæmt nýrri skýrslu greinast mjög margir seint í ferlinu, það er 75 prósent greindust með AIDS eftir að hafa nýlega greinst með HIV.

Þetta þýðir að fólk hafi gengið með veiruna óafvitandi í nokkur ár, sem leiðir til fleiri smitaðra og seinkar lífsnauðsynlegri meðferð því ónæmiskerfið er þegar farið að veikjast. Mikill meirihluti, eða 80 prósent tilfellanna, eru í AusturEvrópu.

„Þetta eru merki um að prófunarstefnan á svæðinu er ekki að virka sem skyldi til að greina HIV snemma,“ segir í yfirlýsingu stofnananna. Andrea Ammon, forstjóri ECDC, sagði afar brýnt að greina HIV snemma og að ríki mættu ekki missa sjónar á boltanum þó að COVID-19 væri í gangi.

Einar Þór Jónsson, framkvæmdastjóri HIV Íslands, segir að enn komi það fyrir hér á landi að fólk greinist seint í sjúkdómsferlinu. En að greining, rakning og meðferð sé mun betri hér og í vesturhluta álfunnar en í austri. Það hafi mikið með hugarfar að gera.

„Í mörgum löndum Austur-Evrópu er eins og HIV sé ekki beint viðurkennt og fólk ekki skimað með sama hætti og hér,“ segir Einar. Viðhorfið til samkynhneigðra karla og þeirra sem sprauta sig með fíkniefnum sé annað. Þá séu heilbrigðiskerfin ekki heldur jafn burðug og vestra. „Þarna ríkja oft afturhaldssöm gildi og ekki talað um samkynhneigð og kynlíf. Í Rússlandi til dæmis er fólk ekki að fara í próf nema það veikist.“

Alþjóðlegur baráttudagur gegn HIV og alnæmi er næstkomandi þriðjudag, 1 desember. „Fólk er enn þá að smitast af HIV og að deyja úr HIV,“ segir Einar. „Ólíkt COVID þá smitast HIV ekki við snertingar og dagleg samskipti en það er margfalt hættulegra.“

Frá 1983 hafa vel á sjötta hundrað manns greinst með HIV á Íslandi og margir eru látnir. Nokkuð hefur aukist á HIV-skránni undanfarin ár vegna fjölgunar innflytjenda, hælisleitenda og erlendra námsmanna. Einar segir að í COVID-faraldrinum hafi margir erlendir með HIV ekki komist til sinna heimalanda til að fá lyfjaskammta og því leitað á göngudeild smitsjúkdóma hér á landi og verið skráðir í kjölfarið. Fjölgun skráninga þýði því ekki endilega fjölgun nýrra tilfella.

„Af og til koma upp tilvik hér þar sem nýgreindur einstaklingur er líklega búinn að vera með HIV í nokkur ár án þess að vita það,“ segir Einar, aðspurður um hvort kerfið hér sé alveg skothelt. „Í þessum litlu sprengjum hafa einstaklingar þá smitað út frá sér og þá er reynt að rekja það. En HIV er þó lítið smitandi sjúkdómur.“

Hvað forvarnaaðgerðir varðar þá nefnir Einar lyfið Prep, sem byrjað var að gefa á Landspítalanum árið 2018. Einnig að fólk láti skima sig. „Samkynhneigðir karlar sem stunda kynlíf með mörgum, fólk sem sprautar sig í æð og fólk sem stundar vændi þarf að vera duglegt að láta fylgjast með sér,“ segir Einar.